Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

ESA skoðar lögmæti sendingargjalda Póstsins

02.09.2019 - 13:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neytendasamtökin hafa óskað eftir því að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, skoði lögmæti svokallaðra endastöðvagjalda sem lögð voru á sendingar Íslandspósts frá útlöndum í júní. Þau hvetja viðskiptavini póstsins til að geyma kvittanir fyrir þessum gjöldum. 

Hófu að rukka endastöðvargjöld í júní

Endastöðvagjald, eða sendingargjald, bættist við sendingar sem komu með Póstinum frá útlöndum í júní - 400 krónur fyrir sendingar frá Evrópu og 600 krónur frá löndum utan Evrópu. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við dreifingu. Íslandspóstur tapaði 718 milljónum króna í fyrra vegna póstsendinga sem komu til landsins. Að sögn Íslandspósts duga alþjóðlegir samningar um endastöðvargjöld í póstþjónustu ekki til að standa straum af kostnaði við dreifingu pakkanna þegar þeir eru komnir til landsins, því var ráðist í þessar breytingar. 

Eiga ekki upplýsingar um kostnað 

Neytendasamtökin hafa gagnrýnt þessi gjöld og dregið lögmæti þeirra í efa. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir samtökin hafa kallað eftir upplýsingum um kostnað við sendingar frá útlöndum, frá hvaða heimsálfum þær koma og kostnað við móttöku sendinganna. Þau svör hafi fengist að Íslandspóstur eigi gögnin ekki til. 

„Í fyrsta svarinu sem okkur barst frá Póstinum kom fram að Póst- og fjarskiptastofnun væri með þessar upplýsingar. Við sættum okkur ekki við það heldur bentum á upplýsingalög og í síðasta svarinu frá Póstinum segja þeir að þessi gögn séu ekki til.“

„Það stendur hreint og klárt í sautjándu grein póstlaga að þessi sendingargjöld eða endastöðvargjöld eins og þau heita í lögunum verði að grundvallast á raunkostnaði og ef þær upplýsingar um raunkostnað liggja ekki fyrir þá teljum við ekki hægt að reikna út kostnaðinn,“ segir Breki. 

Hvetja neytendur til að geyma kvittanir

Neytendasamtökin lögðu fram kvörtun vegna málsins á fundi fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun þar sem Íslandspóstur var til umræðu. 

„Síðan höfum við líka sent fyrirspurn til eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um hvort þessi gjöld standist hreinlega EES samninginn“

Svör hafa borist frá ESA um að málið verði skoðað. 

„En við hvetjum alla til að geyma kvittanir sínar fyrir þessum endastöðvargjöldum því við teljum þau byggja á mjög veikum grunni, “ bætir Breki við. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.