Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

ESA rannsakar ríkisaðstoð við Hörpu

20.03.2013 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hóf í dag formlega rannsókn á hugsanlegri ríkisaðstoð í tengslum við fjármögnun á starfsemi tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Bráðabirðganiðurstaða ESA er að Harpa hafi notið ríkisaðstoðar og að það geti ekki samræmst ákvæðum EES-samningsins.

Á vef ESA kemur jafnframt fram að það sé sökum þess að ekki sé tryggður fjárhagslegur aðskilnaður á menningarstarfsemi frá starfsemi í samkeppnisrekstri. Haft er eftir Oda Helen Sletnes, forseta ESA, að íslensk stjórnvöld verði að sjá til þess að aðstoð, sem ætluð er menningarstarfsemi, sé ekki nýtt til að niðurgreiða starfsemi í samkeppnisrekstri, til að mynda ráðstefnuhald. Gert er ráð fyrir því að opinber útgáfa ákvörðunar Eftirlitsstofnunarinnar verði birt á vef ESA innan eins mánaðar.

Reykjavíkurborg ákvað að leggja það til að Harpa fengi 160 milljónir í viðbótarframlag frá ríki og borg árin 2013 til 2016 eða samtals 640 milljónir. Þá var það jafnframt lagt til að eigendalánum upp á 794 milljónir yrði breytt í hlutafé.