Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

ESA lagði íslenska ríkið fjórum sinnum

18.05.2019 - 13:54
Mynd með færslu
Úr húsakynnum EFTA-dómstólsins. Mynd: EPA
Íslenskum stjórnvöldum stóðu ekki rétt að innleiðingum tilskipana og reglugerða EES um aukna neytendavernd og aukna umhverfisvernd á Íslandi. Ísland tapaði fjórum málum fyrir EFTA dómstólum í vikunni.

Íslenska ríkinu bar að innleiða eina tilskipun og tvær reglugerðir sem tryggir að Íslendingar hafi greiðari aðgang að úrlausnum deilna í neytendamálum fyrir 1. júlí árið 2017. Tilskipunin kveður á um að gefa neytendum kost á því að leysa úr deilumálum án þess að þurfa að fara með málin fyrir dómstóla. Reglugerðirnar tvær snúa að gerð og innleiðingu á rafrænum vettvangi til lausnar á slíkum málum. Með þeim fá neytendur sameiginlegan og rafrænan vettvang til að fá úrlausn sinna mála á einfaldan og hraðan hátt, að því er fram kemur í tilkynningu frá Eftirlitsstofnun EFTA. 

Á sama tíma bar íslenska ríkinu að innleiða tilskipun sem kveður á um ferla í umhverfismati - fyrir 16. maí 2017. Í umhverfismati eru tekin til greina áhrif framkvæmda á umhverfið. Tilskipunin sem um ræðir skilgreinir ferla í umhverfismati og tryggir viðeigandi mat á framkvæmdum á öðrum verkefnum. Henni er ætlað að einfalda og uppfæra núverandi regluverk sem og að gera stjórnvöldum kleift að bæta umhverfisvernd á Íslandi. Högni S. Kristjánsson, stjórnarmaður ESA, segir að umhverfismál séu mikilvægur hluti af EES samstarfinu og því sé brýnt að löggjöfin verði uppfærð sem fyrst. 

Í kjölfar málanna hefur ESA óskað eftir upplýsingum frá stjórnvöldum um framvindu málanna. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV