Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

ESA gerir athugasemdir við íslenskt eftirlit

04.02.2020 - 15:15
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Eftirlitsstofnun EFTA gerir athugasemdir við eftirlit með framleiðslu mjólkur og kjöts hérlendis. Skerpa þurfi á athugunum í mjólkurvinnslum og sláturhúsum. Eftirlitsaðilar hérlendis vinna að úrbætum.

Eftirlitsstofnun EFTA gerði úttekt á opinberu eftirliti hér á landi til að staðfesta að eftirlit með framleiðslu mjólkur og kjöts væri í samræmi við löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Þrír eftirlitsmenn komu til landsins í október og heimsóttu framleiðendur á Norður-, Suður- og Suðvesturlandi ásamt starfsmanni Matvælastofnunar. Eftirlitið náði allt frá frumframleiðslu til lokaafurðar í mjólkur- og kjötvinnslu af flestum búfjártegundum. Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar.

Aukið eftirlit og þjálfun 

Ýmsar athugasemdir eru gerðar í lokaskýrslu ESA vegna eftirlitsins. Þar kemur fram að áhættuflokkun Matvælastofnunar á framleiðendum þurfi að vera ítarlegri og að þeir sem sinna eftirliti með þessum málaflokkum, tímabundið í hlutastörfum, þarfnist meiri þjálfunar.

Þá eru efasemdir um örugga notkun eyrnamerkja í nautgripum og sauðfé og um að nægt eftirlit sé með því að sérstakur áhættuvefur í nautgripum sé fjarlægður. Athugasemdir eru gerðar við svokallaða samræmingarhæfni opinberra rannsóknarstofa og bent á að skerpa þurfi á örverufræðilegum athugunum í mjólkurvinnslum og sláturhúsum.

Eftirlitsaðilar hérlendis hafa gert tímasetta úrbótaáætlun og er vinna við úrbætur þegar hafin að því er fram kemur á vef Matvælastofnunar. 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV