Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Erum sítengd við menningarheim á ensku

Mynd: Honza Soukup / Flickr

Erum sítengd við menningarheim á ensku

08.11.2016 - 13:09

Höfundar

Menn hafa spáð íslenska tungumálinu dauða síðan á 19. öld en hættan er meiri í dag en nokkru sinni áður, að mati Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Samskipti á ensku hafa aukist mikið með tækniframförum síðustu áratuga og mikilvægt er að íslenskan sitji ekki eftir. Ómögulegt gæti reynst að snúa slíkri þróun við.

Eiríkur óttast að íslenskan geti hreinlega dáið út vegna þess hve lítið hefur verið gert til þess að flétta saman íslenskri tungu við þá stafrænu tækni sem rutt hefur sér til rúms á undanförnum árum. Rætt var við Eirík í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Meginbreytingar á tíu ára fresti

Nokkuð hefur verið rætt um hugtakið máltækni, sem þýðir í stuttu máli samvinna tungumáls og tölvutækni. Þá er bæði átt við tölvutækni í þágu tungumálsins, eins og leiðréttingaforrit, rafrænar orðabækur, talgervlar og fleira, en einnig hvernig við getum notað tungumálið til að hjálpa okkur með tæknina. Hugbúnaður sem greinir og skilur talað mál hefur rutt sér til rúms undanfarin ár og hægt að nota hann til að raddstýra ýmsum tækjum og tölvum.

Mynd með færslu
 Mynd: dion gillard - Flickr
Í nýlegum bílum er t.d. hægt að raddstýra símum og tónlistarspilurum.

Eiríkur segir að undanfarna áratugi hafi meginbreytingar orðið á samskiptum manna við tölvur á sirka tíu ára fresti. Um 1985 kom Windows stýrikerfið, með notendavænna viðmóti en áður þekktist. Tíu árum síðar kom Internetið, og fyrir um tíu árum komu snjallsímarnir. Næsta bylting sé samskipti við tölvur með töluðu máli, segir Eiríkur „og spurningin er, hvaða mál ætlum við að tala?“

Ungt fólk í miklum gagnvirkum samskiptum á ensku

Ekki er gert nóg til að bregðast við þessum breytingum að mati Eiríks, sem setur íslenskuna í enn meiri hættu „Það gerist ekkert sjálfkrafa í þessu. Stóru fyrirtækin fara ekki að laga sinn búnað að íslensku af því það eru engar markaðslegar forsendur fyrir því.“

Margt hefur breyst í umhverfi tungumálsins á síðustu fimm árum eða svo, tungumálinu í óhag. „Menn eru núna sítengdir við menningarheim sem er á ensku,“ segir Eiríkur. Sem dæmi má nefna að ungt fólk spilar tölvuleiki þar sem það á gjarnan í miklum gagnvirkum samskiptum sem flest fara fram á ensku. Þá nefnir hann einnig ferðamannastrauminn og áhrif hans sem sjá má í miðbæ Reykjavíkur, þar sem merkingar eru víða á ensku og þær íslensku smám saman að hverfa.

Íslenskunni skipt út fyrir ensku í auknum mæli

Viðhorf ungs fólks hefur einnig breyst á undanförnum árum. Á síðasta ári leiddi könnun í ljós að helmingur 16 ára unglinga vill búa erlendis í framtíðinni, og hefur sú tala hækkað mikið á undanförnum árum. „Þessir unglingar gera sér grein fyrir því að íslenska gagnast þeim ekki mikið í útlöndum. Hefur það áhrif á viðhorf þeirra til móðurmálsins? Það veit maður ekki, en það er mjög margt sem ætti að verða til þess að við hugsuðum okkar gang í þessu,“ segir Eiríkur.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði

Að læra ensku segir hann vissulega jákvætt og gagnist öllum vel, en varasamt sé að skipta íslensku út í of miklum mæli. „Ef allur sá tími sem fer í ensku og enskunotkun er tekin frá íslenskunni, þá getur það verið varasamt.“ Hætt er við því að börn á máltökuskeiði heyri minna af íslensku í nærumhverfi sínu en áður. „Ef foreldrarnir eru bara í snjallsímunum og setja bara börnin fyrir framan YouTube myndböndin, á ensku, þá er hugsanlegt að þau fái ekki næga íslensku í umhverfi sínu til að byggja upp sitt eigið málkerfi.“

Þurfum aðgerðir, ekki áætlanir

Eiríkur hefur áður tjáð óánægju sína með aðgerðarleysi í þessum málum og vakti m.a. athygli í vor þegar hann sagði auðveldara að fá fjármagn til að bjarga hafnargarðinum en íslenskri tungu. „Ég hef verið óþolinmóður, því það hefur komið fram vilji ráðamanna til að gera eitthvað í málinu en það gengur voðalega hægt. Það er alltaf verið að gera áætlanir í staðinn fyrir að setja einhver verkefni af stað, sem væri vel hægt að gera.“

Iphone snjallsími
 Mynd: Pixabay
Snjallsímar halda okkur sítengdum en í auknum mæli við menningarheim á öðru tungumáli

Þróun sem erfitt er að snúa við

Hvert ár sem það tefst að koma einhverju verkefni af stað er mjög slæmt og líkir Eiríkur þessu við hnattræna hlýnun. „Ef við missum stór svið tungumálsins frá okkur þá er ekkert auðvelt að ná því til baka. Eins og með hnattræna hlýnun er erfitt að snúa til baka. Ef og þegar einhver katastrófa gerist, þá er engin leið til baka.“

Lengi hefur verið spáð fyrir dauða íslenskunnar, eða í um 200 ár en þær spár hafa augljóslega ekki gengið eftir. Af ýmsum ástæðum er hættan þó meiri nú en áður, telur Eiríkur. „Ensku áreitið er miklu, miklu meira og nær til miklu yngra fólks. Svo þessi gagnvirkni þar sem börn, t.d. í tölvuleikjum, eru í gagnvirkum samskiptum á ensku, ekki bara óvirkir viðtakendur. Þetta skiptir allt máli.“

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Heimilistækin verða að skilja íslensku

Tækni og vísindi

Gætu leitt þróun þess að tala við tölvur

Tækni og vísindi

Íslensk talgreining Google ekki í boði

Menningarefni

Tæknin gæti veikt stöðu íslenskunnar