Eiríkur segir að undanfarna áratugi hafi meginbreytingar orðið á samskiptum manna við tölvur á sirka tíu ára fresti. Um 1985 kom Windows stýrikerfið, með notendavænna viðmóti en áður þekktist. Tíu árum síðar kom Internetið, og fyrir um tíu árum komu snjallsímarnir. Næsta bylting sé samskipti við tölvur með töluðu máli, segir Eiríkur „og spurningin er, hvaða mál ætlum við að tala?“
Ungt fólk í miklum gagnvirkum samskiptum á ensku
Ekki er gert nóg til að bregðast við þessum breytingum að mati Eiríks, sem setur íslenskuna í enn meiri hættu „Það gerist ekkert sjálfkrafa í þessu. Stóru fyrirtækin fara ekki að laga sinn búnað að íslensku af því það eru engar markaðslegar forsendur fyrir því.“
Margt hefur breyst í umhverfi tungumálsins á síðustu fimm árum eða svo, tungumálinu í óhag. „Menn eru núna sítengdir við menningarheim sem er á ensku,“ segir Eiríkur. Sem dæmi má nefna að ungt fólk spilar tölvuleiki þar sem það á gjarnan í miklum gagnvirkum samskiptum sem flest fara fram á ensku. Þá nefnir hann einnig ferðamannastrauminn og áhrif hans sem sjá má í miðbæ Reykjavíkur, þar sem merkingar eru víða á ensku og þær íslensku smám saman að hverfa.
Íslenskunni skipt út fyrir ensku í auknum mæli
Viðhorf ungs fólks hefur einnig breyst á undanförnum árum. Á síðasta ári leiddi könnun í ljós að helmingur 16 ára unglinga vill búa erlendis í framtíðinni, og hefur sú tala hækkað mikið á undanförnum árum. „Þessir unglingar gera sér grein fyrir því að íslenska gagnast þeim ekki mikið í útlöndum. Hefur það áhrif á viðhorf þeirra til móðurmálsins? Það veit maður ekki, en það er mjög margt sem ætti að verða til þess að við hugsuðum okkar gang í þessu,“ segir Eiríkur.