Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Erum öll mannleg að reyna að leysa flækjur“

Mynd: Úr einkasafni / Úr einkasafni

„Erum öll mannleg að reyna að leysa flækjur“

18.05.2018 - 21:45

Höfundar

Platan Litlir svartir strákar eftir tónlistarmanninn og upptökustjórann Loga Pedro Stefánsson kom út í dag. Þetta er fyrsta plata Loga sem sólólistamanns en hann hefur verið í hljómsveitum eins og Retro Stefson og Sturla Atlas, auk þess að stjórna upptökum og framleiða takta fyrir ótal aðra tónlistarmenn og rappara.

Logi Pedro samdi lögin á plötuna frá nóvember á síðasta ári og fram í apríl. Þetta var tímabil sem var honum erfitt, en hann reyndi að nýta það til að tala meira við vini sína og fjölskyldu. „Það er mikið búið að ganga á síðustu ár og ég hef verið kvíðinn frá því í menntaskóla. Mörg móment þar sem maður er bara kominn í tilfinningalegan hnút en hefur ekkert gert í því,“ segir Logi í viðtali við Síðdegisútvarpið þar sem hann var föstudagsgestur. „Fyrir mig hefur verið mjög mikilvægt að leita til vina minna, svo er búinn að leita mikið til Unnsteins bróður míns í þeim persónulegu erfiðleikum sem ég hef gengið í gegn um. Ég fann að ég þurfti að tappa af því annars gæti stefnt í eitthvað vont.“ Tónlistarmanninum er mikið niðri fyrir þegar kemur að geðheilsumálum ungra karlmanna. „Við verðum sem samfélag að tala meira, sjálfsmorðin eru bein afleiðing af því að strákar geta ekki talað. Strúktúrinn á vinahópum stráka er annar en stelpna, við fáum ekki að tappa af og margir springa.“

Logi tók tvö lög af plötunni í Vikunni með Gísla Marteini.

Tónlistarsköpunin er Loga mjög mikilvæg til að fá útrás fyrir tilfinningar sínar en hann vill þó ekki gangast við því að í henni felist meðvitaður boðskapur. „Þrátt fyrir að platan snerti á þessum hlutum myndi ég ekki beint segja að þetta væri boðskapur. Ég byrjaði bara að skrifa texta og þeir komu. Listin er náttúrulega mjög sterk til að koma frá sér skilaboðum, er besta áróðurstækið.“ En þrátt fyrir Logi hafi unnið mikið í sínum innri málum leggur hann áherslu á það að hann hafi ekki fundið svarið við lífsgátunni. „Sumt fólk sem hefur farið í AA talar eins og það hafi lykilinn að lífinu. Ég er ekki þar, ég held að enginn sé alveg þar nokkurn tímann. Algjörlega upplýstur. Við erum öll bara mannleg að reyna að leysa flækjur.“

Platan Litlir svartir strákar er gefin út af útgáfufyrirtæki bræðranna Loga Pedros og Unnsteins Manuels, en þeir eru í samstarfi við Sony á Norðurlöndunum um dreifingu. Logi segir að það hafi gefist vel og hann gefur ekki mikið fyrir tal um að tekjumódel tónlistariðnaðarins hafi versnað með streymisveitunum, hann fái til dæmis fínar tekjur í gegnum Spotify. „Ég hef verið að gefa út plötur í tíu ár og er að fá jafn mikið út úr plötusölu núna og þegar að Retro Stefson gekk vel.“

Mynd með færslu
Umslag plötunnar Litlir svartir strákar.

Logi stefnir á halda útgáfutónleika á næstunni en hann er þó kvíðinn fyrir því að spila á sviði undir eigin nafni og sem aðalsöngvari, það hafi hann ekki gert áður. Hann segir það fínt að spila á menntaskólaböllum. „Þar fær maður rosa fínt borgað fyrir að spila í hálftíma fyrir drukkna unglinga, og það pælir enginn í því, þú ert ekkert að metta markaðinn.“ En í kvöld mun hann þó fagna útgáfunni á skemmtistaðnum Prikinu. „Ég ætla að bjóða öllum sem eru á plötunni að drekka með mér kampavín,“ segir hann léttur í bragði að lokum. 

Logi Pedro Stefánsson var föstudagsgestur Síðdegisútvarpsins.

Tengdar fréttir

Tekur tíma að finna sína eigin rödd

Tónlist

Mynd um kynferðisbrot og viðbrögð samfélagsins

Tónlist

Rappandi furðufugl sem klæðist kjólum

Tónlist

Óx með tónmenntastofu Austurbæjarskóla