„Erum komnar á ról aftur“

Fanndís Friðriksdóttir í baráttunni með íslenska landsliðinu. - Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Erum komnar á ról aftur“

03.09.2018 - 12:17
„Heilsan er bara fín. Maður náði að endurheimta vel í gær og ég er bara ferskari en ég hélt,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir landsliðskona í fótbolta um það hvernig gengi að jafna sig eftir leikinn við Þýskaland á laugardag. Ísland mætir Tékklandi á morgun í lokaumferð undankeppni HM 2019 og dugir lítið annað en sigur til að komast í umspil um laust sæti á HM.

Ísland hefði getað tryggt sér beint sæti á HM með sigri á Þýskalandi á laugardag. Þjóðverjar unnu leikinn hins vegar 2-0 og komust í toppsæti riðilsins á kostnað Íslands. „Þetta voru auðvitað ákveðin vonbrigði, því okkur langaði þetta mjög mikið á laugardaginn. Þannig maður tók bara laugardaginn í það að vera svolítið svekktur. Þetta var skrítið. En við erum bara komnar á ról aftur og hlakkar mikið til að spila leikinn á morgun. Þetta er mjög mikilvægur leikur,“ sagði Fanndís þegar hún ræddi við RÚV fyrir landsliðsæfingu Íslands á Laugardalsvelli í hádeginu.

„Þetta er stærsti leikurinn núna“

Með sigri á Tékkum kemst Ísland líklega í umspil. Leikið er í sjö riðlum í undankeppni HM í Evrópu og komast fjögur lið með bestan árangur í 2. sæti í umspil um eitt laust sæti. HM draumurinn er því enn á lífi þrátt fyrir tapið á móti Þýskalandi á laugardag. „Þetta er stærsti leikurinn núna. Hinn er búinn, þannig að þetta er núna stærsti leikurinn. Við þurfum að vinna hann til að geta haldið þessu áfram.“

Fanndís átti að vera í byrjunarliði Íslands í leiknum við Tékka í Znojmo í Tékklandi í október í fyrra. Hún meiddist hins vegar í upphitun fyrir leikinn og missti af honum. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. „Það verður bara skemmtilegt að spila þennan leik á morgun. Ég held ég hafi ekki spilað á móti þeim áður. Þannig ég er bara spennt.“

Tékkar fastir fyrir og beinskeyttir

Mikil harka var í leiknum í Znojmo í fyrra og Tékkarnir spiluðu fast. Fanndís býst við svipuðu á morgun. „Ég var einmitt að reyna að rifja þennan leik upp í gær. Ég man eiginlega ekki mikið úr leiknum. En við fórum yfir Tékkana á fundi í gær og þar sá maður alveg að þær eru mjög fastar fyrir og mjög beinskeyttar í því sem þær gera. Þannig að þetta verður mjög erfiður leikur,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir.

Leikur Íslands og Tékklands hefst klukkan 15:00 á Laugardalsvelli á morgun. Honum verður lýst beint í útvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Sigur á Tékkum heldur lífi í HM draumnum