Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erum ekki að beita viðskiptaþvingunum

26.10.2019 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bankastjóri Íslandsbanka segir það af og frá að í nýrri markaðsstefnu bankans, þar sem meðal annars verður horft til kynjahlutfalls innan fjölmiðla við auglýsingakaup, felist viðskiptaþvinganir. Hún viðurkennir þó að bankinn hefði mátt skýra málið betur.

Íslandsbanki hefur samþykkt markaðsstefnu þar sem unnið er eftir fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, meðal annars jafnréttis- og umhverfismálum. Málið komst í hámæli þegar samskiptatjóri bankans skrifaði í blaðagrein að bankinn muni kveðja auglýsingar í fjölmiðlum sem bjóða upp á afgerandi kynjahalla.

Hefðum mátt útskýra málið betur

Þetta vakti hörð viðbröð. Fjármálaráðherra sagðist hugsi og í kvöldfréttum sjónvarps í gær sagði forsætisráðherra að fara þurfi varlega þegar komi að samspili stórfyrirtækja og frjálsra fjölmiðla.

„Mér þykir afar leitt hvernig þessi umræða hefur þróast því að okkur gengur að sjálfsögðu gott eitt til. Það er að sjálfsögðu við okkur sjálf að sakast því við hefðum geta sett hlutina og skilaboðin betur fram,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Fjarri að við viljum beita viðskiptaþvingunum

Unnið hefur verið að því að flétta heimsmarkmiðin inn í stefnu bankans og segir Birna að það snúi mest inn á við en einnig eigi bankinn í virku samtali við sína viðsemjendur um þessi málefni. „Það er ekkert jafn fjarri okkur að við viljum beita viðskiptaþvingunum. Við viljum ekki að okkar kúnnar geri það við okkur og við munum að sjálfsögðu ekki gera það við þá viðsemjendur sem við erum að tala við.“

Íslandsbanki er stór aðili á auglýsingamarkaði og segir Birna að bankinn muni sem fyrr dreifa auglýsingafé sínu víða.  Af og frá að bankinn sé að reyna að hafa áhrif á skrif og umfjöllun fjölmiðla. „Við myndum aldrei gera það.  Við viljum bara eiga samtal og samvinnu og umræður um mikilvæg málefni. Fjölmiðlar eru einn þáttur en langstærsti þátturinn okkar viðskiptavinir.“