„Erum eins og á annarri plánetu“

13.01.2020 - 17:04
Mynd: Grái herinn / Grái herinn
Grái herinn hefur ákveðið að ráðast til atlögu gegn ríkinu vegna óréttlátra skerðinga á lífeyrisgreiðslum að mati samtakanna. Á næstunni verður lögð fram stefna um að skerðingarnar séu brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og að þær samræmist ekki ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Ef dómur fellur ríkinu í óhag verður það að endurskoða kerfið.

Harkalegar skerðingar

Málsókn gegn ríkinu hefur verið í undirbúningi nær allt síðasta ár. Meðal annars hefur verið stofnaður málsóknarsjóður til að standa undir rekstri málsins. Daníel Isebarn hefur ásamt tveimur öðrum lögmönnum unnið fyrir Gráa herinn. En á hvaða forsendum er verið að höfða mál?

„Þetta er flókið en í einföldu máli er forsenda sú að kerfið eins og það hefur verið frá 2017 felur í sér miklar skerðingar. Það er verið skerða ellilífeyri svo harkalega á grundvelli greiðslna frá skyldubundnum lífeyrissjóðum að það komið út fyrir þau mörk sem eru heimiluð í stjórnarskránni. Þetta er í raun orðin skerðing á þeim eignarrétti sem fellst í réttindum hjá lífeyrissjóði," segir Daníel.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Daníel Isebarn

Þetta er fáránlegt kerfi

Ákveðið hefur verið að tefla fram prófmáli. Dæmi verður tekið af tiltekinni konu sem hefur greitt í lífeyrissjóð í tugi ára en fær skertar bætur frá ríkinu. Vinnist málið vona menn að það hafi fordæmisgildi fyrir aðra sem eru í sömu stöðu og hún.

„Við viljum fá liðsinni dómstólanna til þess að knýja ríkið til að breyta þessum reglum og draga úr þessum skerðingum," segir Finnur Birgisson arkitekt og félagi í Gráa hernum. Hann situr líka í stjórn málsóknarsjóðsins. Hann segir að núverandi kerfi sé mjög óréttlátt.

„Alveg tvímælalaust. Þetta er fáránlegt kerfi. Það sést best þegar við berum okkur saman við Norðurlandaþjóðirnar, sem við gerum nú gjarnan, að við erum þarna eins og á annarri plánetu, segir Finnur. Hann bendir á að tekjutengingar með þessum hætti séu ekki fyrir hendi annars staðar á Norðurlöndunum. Það votti reyndar fyrir tekjutengingum á ellilífeyri í Danmörku. „En sú tekjutenging er miklu vægari heldur en hér hjá okkur. Þar er stór hluti af lífeyrisgreiðslunum grunnlífeyrir. Hann skerðist ekki vegna greiðslna úr lífeyrissjóði."

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Finnur Birgisson

20% af launum verkamanns 

Það má segja að skriður hafi komist á í lífeyrissjóðsmálum 1969. Þá samdi Alþýðusambandið í kjarasamningum um skylduaðild félagsmanna stéttarfélaga að lífeyrissjóðum. Fyrir þann tíma var reyndar búið að stofna nokkra lífeyrissjóði einstakra starfsstétta. Á þessum tíma greiddi ríkið ákveðinn grunnlífeyri sem nam um 20 prósentum af lágmarkslaunum verkamanna. Fljótlega eða 1971 var tekin upp tekjutrygging sem var þá uppbót fyrir þá ellilífeyrisþega sem stóðu verst. Tekjutryggingin var í takt við tekjur viðkomandi en grunnlífeyrir var greiddur til allra. Hann var við lýði allt til ársins 2009. Hann var í fyrsta sinn skertur í hruninu og var það tímabundin ákvörðun vegna hremminga í samfélaginu. 2013 var svo skerðing grunnlífeyris afnumin aftur. 

2017 var kerfinu breytt mikið. Mjög einfalt sagt var greiðsla almannatrygginginga til ellilífeyrisþega nánast sameinuð í eina greiðslu. Grunnlífeyririnn heyrði sögunni til. Hann var rétt fyrir þessar breytingar um 40 þúsund krónur á mánuði.

Nú í byrjun þessa árs er ellilífeyririnn 256.789 krónur á mánuði. Þeir sem búa einir eiga kost á heimilisuppbót, 64.889 krónum á mánuði. Samanlögð réttindi þeirra eru 321.678 þúsund krónur á mánuði.

30 krónur í vasann

En það eru skerðingar. Atvinnutekjur geta verið 100 þúsund krónur á mánuði á þess að greiðslur frá Tryggingastofnun skerðist. Hins vegar mega lífeyrissjóðsgreiðslur og fjármagnstekjur ekki fara yfir 25 þúsund krónur á mánuði. Ef upphæðin er hærri skerðast greiðslurnar. Frítekjumörk miðast við 45%. Tökum dæmi um 100 kall sem fer fram yfir frítekjumörkin. Hann skerðist um 45 krónur. Af þessum 100 kalli hefur lífeyrisþeginn greitt skatt til ríkisins. Það þýðir að aðeins renna rúmar 30 krónur í vasa lífeyrisþegans af því sem hann fær úr lífeyrissjóðnum. Það er þetta sem Grái herinn er ósáttur við.

Hins vegar má segja að lífeyrissjóðakerfið hafi breyst talsvert frá 1969. Fyrir 1980 var nær ómögulegt að leggja fyrir og greiða í lífeyrissjóð. Vegna óðaverðbólgu sem hrellti landsmenn á þessum tíma stóð spariféð í ljósum logum. Nú er tíðin talsvert önnur. Lífeyrisgreiðslur brenna ekki lengur á verðbólgubálinu. Hins vegar eru margir sem nú eru að ljúka lífsstarfinu ekki búnir að ávinna sér mikil réttindi. Lífeyrisjóðsgreiðslur til þeirra eru lágar og vegna skerðinga hjá Tryggingastofnun bera þeir ekki mikið meira út býtum en sá sem hefur aldrei greitt í lífeyrissjóð. Hins vegar eru næstu kynslóðir sem fara á eftirlaun kannski þær fyrstu sem vinna sér inn full lífeyrissjóðsréttindi.

Rætt er ítarlega við Daníel og Finn í Speglinum.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn