Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erum á miðjum heitasta áratug sögunnar

07.02.2019 - 02:17
Mynd með færslu
Skraufaþurr akur í Sviss vökvaður í miðri hitabylgju sumarið 2018 Mynd:
Breska veðurstofan spáir því að áratugurinn 2014 - 2023 verði hlýjasti áratugur á jarðríki síðan mælingar hófust árið 1850. Í spánni kemur fram að allt frá 2014 hafi meðalhiti á Jörðinni mælst um eða yfir einni gráðu hærri en fyrir daga iðnbyltingar. Næstu fimm árin reikna breskir veðurfræðingar með því að meðalhitinn haldi áfram að hækka en standi í besta falli í stað, og verði á bilinu 1,03 til 1,57 gráðum yfir meðaltali fyrri tíma árið 2023.

Parísarsamkomulagið miðar við að halda hlýnuninni fram til ársins 2030 innan við 1,5 gráður.  

ALþjóðaveðurfræðistofnunin, ein af undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna, birti í gær skýrslu þar sem fram kemur að 20 heitustu ár frá því mælingar hófust voru öll á síðustu 22 árum, og að síðustu fjögur árin eru þau heitustu sem mælst hafa.  2018 var fjórða heitasta ár sögunnar, á eftir 2015, 2017 og því allra heitasta, 2016, en það ár jók óvenju öflugur El Nino enn á hlýindin sem voru þó ærin fyrir. Í skýrslunni segir að þetta sé „skýrt merki um áframhaldandi langtíma loftslagsbreytingar."