Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Eru burðarplastpokar á útleið?

Mynd: _ / flickr.com

Eru burðarplastpokar á útleið?

11.04.2016 - 15:26

Höfundar

Baráttan gegn notkun plastpoka, ekki síst burðarplastpoka er í fullum gangi. Í sumum ríkjum hafa þeir verið bannaðir og annars staðar er gjaldtöku beitt. Íslendingar hafa síður en svo setið hjá í plastpokaumræðunni. Stefán Gíslason fjallar um plastpoka í pistli sínum í Samfélaginu í dag.

Plastpokar hafa verið talsvert í umræðunni síðustu misserin og þá sérstaklega burðarplastpokar. Nokkur ríki og svæði hafa bannað slíka plastpoka alfarið, annars staðar er verið að íhuga slíkt bann og enn annars staðar hefur verið reynt að draga úr notkuninni með gjaldtöku. Allt er þetta gert í ljósi þeirrar óþægilegu staðreyndar að talsvert stór hluti af öllum þessum plastpokum endar úti í náttúrunni þar sem pokarnir geta valdið margvíslegum og langvarandi skaða. Auk þess er það auðvitað aldrei góð hugmynd að nýta auðlindir jarðar í eitthvað sem er svo bara hent.

Íslendingar hafa síður en svo setið hjá í plastpokaumræðunni. Svo dæmi séu tekin kvöddu íbúar Stykkishólms burðarplastpokana með virktum í september 2014 og á þeim slóðum er nú unnið að því að gera allt Snæfellsnes plastpokalaust. Plastpokalausir Vestfirðir eru líka á dagskrá og innan fárra vikna er von á niðurstöðum sérstaks starfshóps sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði til að móta tillögur um aðgerðir til að draga úr notkun plastpoka á Íslandi. Í því starfi er m.a. horft til þingsályktunar Alþingis frá 1. júlí á síðasta ári um að draga úr plastpokanotkun.

Í síðustu viku birti The Guardian samantekt um reynslu Breta af sérstakri gjaldtöku á plastpoka í verslunum, en nú er einmitt liðið hálft ár síðan lagt var gjald upp á 5 pens, eða sem samsvarar rétt um það bil 9 íslenskum krónum, á hvern einnota burðarplastpoka í verslunum á Englandi. Áður hafði sams konar gjald verið tekið upp í öðrum hlutum Bretlands. Að því er fram kemur í samantektinni felst helsti lærdómurinn af gjaldtökunni í sex atriðum:

Í fyrsta lagi hefur notkun einnota burðarplastpoka í verslunum minnkað um 80%. Þetta er byggt á tölum frá stærstu verslunarkeðjunum, eins og Tesco og Morrisons, en í lok maí eiga allar verslanir með fleiri en 250 starfsmenn að vera búnar að skila skýrslu um plastpokasöluna. Nákvæmt yfirlit frá öllum helstu verslunum ætti því að liggja fyrir í júní.

Í öðru lagi hafa tekjur líknarsamtaka aukist töluvert á þessu hálfa ári sem liðið er. Reyndar ráða verslunareigendur sjálfir hvað þeir gera við níkallinn sem þeir fá fyrir hvern poka, svo fremi sem þeir gera stjórnvöldum grein fyrir því, en flestir hafa valið að láta söluverðið renna til góðra málefna. Stjórnvöld gera sér vonir um að á 10 árum skapi þetta sjóði upp á samtals 730 milljónir punda, eða sem nemur um 130 milljörðum íslenskra króna. Hjá Tesco hefur verið farin sú leið að veita þessum peningum í umhverfisverkefni í nærsamfélaginu að eigin vali viðskiptavina. Þegar er búið að ráðstafa með þessum hætti 20 milljónum punda, eða sem nemur um þremur og hálfum milljarði íslenskra króna, en það er stærri tala en menn hafa áður séð í slíkum verkefnum í Bretlandi.

Í þriðja lagi telja sumir verslunareigendur að búðarhnupl hafi aukist með minnkandi plastpokanotkun, eða öllu heldur eftir því sem færst hefur í vöxt að fólk komi með eigin burðarpoka í verslanir. Þá sé nefnilega svo freistandi að láta eitthvað detta ofan í pokann og gleyma svo að framvísa því við kassann. Rannsókn sem gerð var í Wales bendir þó til að þrátt fyrir þessar áhyggjur hafi breytingin ekki haft nein áhrif á búðarhnuplið.

Í fjórða lagi hafa einhverjar vísbendingar komið fram um versnandi hegðum viðskiptavina, burtséð frá búðarhnuplinu. Til dæmis er eitthvað um að fólk hafi stolið innkaupakerrum til að færa varninginn heim og eins er alltaf eitthvað um þjófnað á pokum. Einhverjar verslanir hafa gripið til þess ráðs að setja þjófavörn í margnota poka og innkaupakörfur.

Í fimmta lagi hafa sumar verslanir farið í kringum reglurnar um plastpokagjaldið. Einhverjir hafa jafnvel gengið svo langt að klippa höldurnar af haldapokunum, því að gjaldið leggst á alla poka með höldum, litla sem stóra og þykka sem þunna, þar með talið litla haldapoka á rúllum. Og bara svo því sé líka haldið til haga, þá verða fataverslanir og bókaverslanir að innheimta gjaldið ekkert síður en matvöruverslanir. En minnstu búðirnar eru undanþegnar og svo þarf maður t.d. ekki að borga 5 pens þegar maður kaupir lifandi gullfisk í plastpoka. Einhverjir hafa verið lagnir við að teygja þessar undanþágur enda sjálfsagt mikið til vinnandi til að losna við að borga 9 krónur aukalega. En hvers vegna verslunareigendur nenna, eða sjá sér hag í, að klippa höldur af pokum til að þurfa ekki að selja þá, verður ekki útskýrt í þessum pistli.

Í sjötta lagi virðist ekkert hafa orðið úr því öngþveiti sem Daily Mail hafði spáð að upptaka 5 pensa gjaldsins myndi hafa í för með sér, þar sem mikil vandræði myndu skapast þegar starfsfólks verslana færi að glíma við flóknar reglur og reiða viðskiptavini, jafnvel svo að það gæti leitt til einhvers konar hruns í smásöluversluninni. Þvert á móti virðist þetta yfirleitt ganga býsna vel og hentugar innkaupatöskur á hjólum hafa rokselst, framleiðendum þess konar varnings til ánægju.

Gjaldtaka af plastpokum er ein leið af fleirum til að uppfylla ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2015/720 þar sem aðildarlöndin er skylduð til að draga varanlega úr notkun þunnra burðarplastpoka. Á dögunum skilaði Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) einmitt skýrslu til ríkisstjórnarinnar um innleiðingu plastpokaákvæðisins í sænska löggjöf. Meginniðurstaða þeirrar skýrslu er að minni notkun burðarplastpoka hafi í för með sér betra umhverfi og betri nýtingu auðlinda og að nauðsynlegt sé að leggja gjald á alla plastpoka, jafnt þykka sem þunna. Gjaldið þurfi líklega að vera a.m.k. 5 krónur sænskar, eða um 75 íslenskar til að ná tilætluðum árangri. Verðið þurfi þó að ákveða nánar þegar fyrir liggja meiri upplýsingar um verðteygni plastpoka, þ.e.a.s. hversu mikil áhrif tiltekin gjaldtaka hafi á notkunina. Markmið Svíanna er að plastpokanotkun verði komin niður í 40 poka á mann á ári í árslok 2025, en það er einmitt sama markmið og gengið er út frá í vinnu íslenskra stjórnvalda. Í dag er hins vegar áætlað að hver Svíi noti rúmlega 80 poka á ári. Í skýrslu Naturvårdsverkets kemur fram að gjaldtökunni þurfi að fylgja eftir með öflugri upplýsingamiðlun – og eins þurfi utanumhald og skýrslugjöf að vera í góðu lagi. Við gerð skýrslunnar var líka skoðað hvort ná mætti sama árangri með öðrum aðferðum, svo sem með plastpokabanni, en niðurstaðan var sú að innheimta tiltekins lágmarksgjalds væri besta leiðin.

Það bendir sem sagt flest til þess að burðarplastpokar séu á útleið. Málið snýst ekki endilega um að hætta alfarið að nota þá, heldur um að hætta að sóa auðlindum að óþörfu.