Erlendur ökumaður játaði sök

10.03.2016 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
Mál erlends ökumanns sem verið hefur í farbanni frá því að banaslys varð á brúnni yfir Hólá í Öræfum var dómtekið í Héraðsdómi Suðurlands í morgun. Ökumaðurinn er ákærður fyrir að hafa af gáleysi valdið dauða og líkamstjóni. Hann hefur játað sök og er laus úr farbanni. Dómur í málinu verður kveðinn upp um miðja næstu viku.

Japanskur ökumaður lést í slysinu sem varð á öðrum degi jóla, eiginkona hans og tvö börn slösuðust. Ákærði er af kínversku bergi brotinn en býr á Bretlandi. Hann var talinn hafa komið inn á brúna á mikilli ferð eftir að hinn bíllinn var kominn upp á hana. Lögreglan á Suðurlandi stóð að umfangsmikilli rannsókn á málinu, þar sem byggt var á hraðaútreikningum, bíltæknirannsóknum og efnarannsóknum.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi