Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um hálfa milljón

05.01.2017 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
40% fleiri erlendir ferðamenn fóru um Leifsstöð í fyrra en árið á undan. Tæplega ein komma átta milljónir erlendra ferðamanna fóru um flugstöðina í fyrra, meira en hálfri milljón fleiri en árið 2015.

Þetta kemur fram í tölum sem Ferðamálastofa birti í dag, og byggðar eru á talningu Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þá eru ótaldir þeir erlendu gestir sem koma til landsins um Reykjavíkurflugvöll, með farþegaferjunni Norrænu og með skemmtiferðarskipum. Hins vegar eru þeir erlendu ríkisborgarar sem búa á Íslandi með í tölunum.

Á árinu 2016 komu alls 1.767.726 erlendir ferðamenn til Íslands. Árið á undan, 2015, voru þeir 1.261.938. 

Flestir ferðamenn komu frá Bandaríkjunum í fyrra, ríflega fjögur hundruð þúsund. Þeim fjölgaði um 70% milli ára. Næst stærsti hópurinn er Bretar - ríflega þrjú hundruð þúsund breskir ferðmenn komu til Íslands 2016.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV