Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Erlendir ríkisborgarar 6,6%

20.03.2012 - 09:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi hefur tvöfaldast á síðastliðnum tíu árum. Þann 1. janúar 2012 voru skráðir hérlendis 20.957 erlendir ríkisborgarar. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda var 6,6 prósent samanborið við 3,4 prósent árið 2002. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Eins og síðustu ár eru Pólverjar langfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara hér á landi. Þann 1. janúar voru þeir 9.049 eða  43,2 prósent allra erlendra ríkisborgara. Næstfjölmennasti hópurinn er frá Litháen, 7,7 prósent. Þar á eftir koma Þjóðverjar sem eru 4,4 prósent allra erlendra ríkisborgara hér á landi.

Hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarar búa á Suðurnesjum og á Vestfjörðum eða 9 prósent af heildarmannfjölda á hvoru landsvæði um sig. Á Norðurlandi eystra er hlutfallið lægst eða 3,6 prósent allra íbúa.

Í fyrra fengu 370 einstaklingar íslenskan ríkisborgarararétt en 450 árið 2010. Ekki hafa færri einstaklingar fengið íslenskan ríkisborgararétt á einu ári síðan 2002.