Erlendir miðlar fjalla um Klausturmálið

06.12.2018 - 20:03
Mynd:  / 
Umfjöllun um Klausturmálið nær út fyrir landsteinana og miðlar á borð við breska ríkisútvarpið og New York Times hafa fjallað um málið undanfarna daga. Þá hafa miðlar annars staðar á Norðurlöndunum sömuleiðis beint sjónum sínum að Íslandi.

Fjölmiðlar á Norðurlöndunum hófu að fjalla um mál þingmannanna sex úr Miðflokknum og Flokki fólksins fljótlega eftir að málið kom fyrst upp. 

Á vef norska ríkisútvarpsins NRK er meðal annars fjallað um rakarastofufund Gunnars Braga Sveinssonar, þáverandi utanríkisráðherra, í tengslum við ummælin á Klausturbar. 

Í frétt SVT, sænska ríkisútvarpsins, segir að ummælin hafi orðið til þess að fjöldi fólks hafi mótmælt á götum úti. Á báðum stöðum er rifjuð upp umfjöllun um Panamaskjölin og það þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hætti í kjölfarið sem forsætisráðherra árið 2016.

Í frétt BBC um málið er sagt frá háværum kröfum um afsögn þingmannanna sex og að íslenskt samfélag sé í áfalli vegna málsins.

The New York Times fjallar einnig um málið, en þar gætir nokkurs misskilnings og Anna Kolbrún Árnadóttir sögð ráðherra. 

TV2 í Danmörku hefur sýnt málinu hvað mestan áhuga og fjallað um það í ófáum fréttatímum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi