Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Erlendir ferðamenn vilja íslenskan bjór

27.12.2012 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Erlendir ferðamenn eru sólgnari í íslenskan bjór en útlenskan, segir reyndur veitingamaður. Átta af tíu mest seldu bjórtegundum landsins eru innlend vörumerki.

Sú var tíðin að bjór var bara bjór, að minnsta kosti í hugum okkar Íslendinga, og að megninu til útlenskur. En nú eru breyttir tímar. Það eru til alls kyns bjórtegundir í Ríkinu og margar þeirra íslenskra í húð og hár ef svo mætti að orði komast.

Í fyrra seldust 3,75 milljónir lítra af íslenskum bjór. Það er um fjórðungur af heildarsölunni - sem var 14,4 milljónir lítra.

Tveir innlendir framleiðendur bera höfuð og herðar yfir aðra - Ölgerðin og Vífilfell framleiða saman 93,1% af íslenska bjórnum. Nokkur lítil brugghús - til að mynda í Skagafirði, Flóahreppi, Borgarfirði og á Dalvík - framleiða svo restina. Þessi flóra öllsömul hefur síðan áhrif á neysluna - bæði hjá okkur - og eins þeim sem heimsækja landið.

Kormákur Geirharðsson, vert, segir úrvalið orðið gríðarlegt og verði alltaf betra og betra. Þá sæki útlendingar meira í íslenskan bjór heldur en nokkurn tíman erlendan bjór. Þeir spyrji sérstaklega um hann og leiti hann uppi, fari á milli staða til að bragða eitthvað annað.

Óræk sönnun er að á topp tíu listanum yfir mest seldu bjórtegundirnar - eru átta íslensk vörumerki.

Topp 10 listinn  yfir mest seldu bjórtegundirnar á Íslandi:

Víking Gylltur   

Víking Lager     

Víking Lite          

Thule    

Tuborg Gold     

Egils Gull            

Tuborg Green  

Víking Gylltur   

Egils Lite             

Víking Sterkur  

Alls konar árstíðarbundinn sérframleiðsla bætir svo enn við flóruna, og úrvalið bætir svo menninguna. 500 þúsund lítrar seljast til að mynda af hinum svokallaði jólabjór sem sérstaklega er bruggður í ýmsum afbrigðum hér fyrir hátíðirnar. Kormákur segir að það sé alltaf stærri og stærri hópur sem vilji prufa alla þessa nýju páska-, jóla-, þorra- og sumarbjóra, þessa sterku bjóra, og séu ákveðnir í því að smakka sem flest. Þá verði bragðlaukarnir öflugri og þeir vilji meira.