Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Erlend staðgöngumæðrun til barnaverndar

02.11.2015 - 23:44
Mynd með færslu
Á umræddum ársfjórðungi fæddust 950 börn. Mynd: RÚV - Kastljós
Barnaverndaryfirvöld hér á landi hafa til meðferðar mál þar sem börn hafa komið í heiminn með staðgöngumæðrun erlendis. Þetta kemur fram í umsögn Barnaverndarstofu við frumvarp heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun. Þar segir enn fremur að óljóst sé hverjir fari með forsjá barnanna.

Í umsögn, sem lögfræðingur Barnaverndarstofu sendi velferðarnefnd í dag, segir að barnaverndarnefndir hafi tekið forsjána yfir að svo stöddu þar til leyst hefur verið úr þeim málum.

Fram kemur að nefndirnar hafi þar af leiðandi borið ábyrgð á vistun barnanna. Það hafi  verið gert með þeim hætti að barnaverndarnefndirnar sækja um til Barnaverndarstofu að gera þá aðila sem vilja fara með forsjá barnanna að vistforeldrum.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndastofu, staðfestir í samtali við fréttastofu í kvöld að slík mál séu á borð barnaverndaryfirvalda. Þau séu þó ekki mörg en einhver.

Hér á landi er bannað að eignast börn með hjálp staðgöngumóður. Heilbrigðisráðherra hefur þó lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að leyfa slíka slíkt að uppfylltum ströngum skilyrðum. 

Í umsögn Barnaverndastofu er spurt hvort hægt sé að setja „skynsamlega löggjöf um staðgöngumæðrun.“

Á það er bent að erfitt sé að sjá fyrir sér að reglur frumvarpsins komi fyrir að upp geti komið deilur milli foreldra og staðgöngumóður. „[S].s. varðandi lifnaðarhætti staðgöngumóður á meðgöngu, sérstaklega ef síðar kemur í ljós að barnið glímir e.t.v. við fötlun eða erfiðleika sem væntanlegir foreldrar vilja rekja til hegðunar staðgöngumóður á meðgöngu,“ segir í umsögninni.

Þá bendir lögfræðingur Barnaverndarstofu á að verði frumvarpið að lögum gildi þrenns konar lög varðandi aðstoð hins opinar til þeirra sem ekki geta eignast börn með hefðbundnum hætti - ein lög gildi nú þegar um tæknifrjóvgun og önnur um ættleiðingar.

Í umsögninni eru einnig gerðar athugasemdir við að í frumvarpinu sé ekki tekin afstaða til þess hvað eigi að gera þeim tilvikum þar sem farið er í kringum reglurnar með einum eða öðrum hætti. „S.s ef greitt er yfir staðgöngumæðrun eða ef einstaklingar sem ekki uppfylla skilyrði um staðgöngumæðrun fara fram hjá kerfinu og eignast börn með staðgöngumæðrun án leyfis.“

Lögfræðingur Barnaverndarstofu segir enn fremur að hvorki innlendar né erlendar skuldbindingar geri kröfu um að sett verði lög sem heimili staðgöngumæðrun.