Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Erlend glæpasamtök með augastað á Íslandi

18.12.2017 - 22:25
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Yfirmaður hjá Europol telur að erlend glæpasamtök renni hýru auga til Íslands meðal annars vegna efnahagsástandsins og ferðamannastraumsins. Hann segir sölu og framleiðslu glæpasamtaka á fíkniefnum vera stærsta vandamál sem lögregluyfirvöld í Evrópu standi frammi fyrir.

Þrír Pólverjar, búsettir á Íslandi, sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um fíkniefnaframleiðslu, fjársvik og peningaþvætti. Mennirnir eru taldir tengjast pólskum glæpasamtökum sem teygja anga sína til Íslands, og voru handteknir í samræmdum lögregluaðgerðum í Hollandi, á Íslandi og Póllandi á dögunum sem greint var frá á blaðamannafundi í dag.

Þrjátíu milljarða evra iðnaður í Evrópu

Zoltan Nagy, yfirmaður rannsóknardeildar Europol vegna skipulagðrar brotastarfsemi, segir sölu og framleiðslu glæpasamtaka á fíkniefnum vera eitt stærsta vandamál sem lögregluyfirvöld í Evrópu standi frammi fyrir og áætlar að iðnaðurinn velti hátt í þrjátíu milljörðum evra á ári. „Þetta er mjög flókinn, öflugur og hættulegur markaður sem hefur áhrif á þjóðfélög,“ segir Nagy í samtali við fréttastofu.

Yfirvöld á Íslandi lögðu hald á um tvö hundruð milljónir króna við húsleitir í tengslum við alþjóðlegu lögregluaðgerðina, í reiðufé og öðrum eignum, en við rannsókn málsins frá áramótum hefur lögregla lagt hald á fíkniefnabasa til framleiðslu á allt að áttatíu kílóum af amfetamíni og MDMA efni sem hefði dugað til framleiðslu á um 26 þúsund e-töflum.

„Auðvitað vilja glæpamennirnir einnig hagnast á þessu“

„Íslenska hagkerfið er á uppleið og auðvitað er það þannig að glæpamennirnir elta peningana,“ segir Nagy. „Það er einn helsti hvatinn á bak við þessa glæpastarfsemi. Þeir laðast einnig að Íslandi vegna verðlagsins, vegna ferðamannanna sem koma til Íslands. Auðvitað vilja glæpamennirnir einnig hagnast á þessu.“

Nagy segir samvinnu lögregluyfirvalda yfir landamæri gegna lykilhlutverki í að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi í Evrópu. „Glæpamenn þekkja engin landamæri,“ segir hann. „Í þessari rannsókn var mjög gott að sjá að lögreglan, tollgæsluyfirvöld og dómsmálayfirvöld reyndu líka að fara yfir landamærin til að eltast við glæpamennina en fyrst og fremst peninga þeirra og koma höndum yfir hagnað þeirra af glæpastarfseminni.“