Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Erlend fjárfesting lík skuldsetningu

28.09.2013 - 21:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisráðherra vill að regluverk innlendra lífeyrissjóða verði liðkað til að þeir geti fjárfest meira í sprotafyrirtækjum en þeir gera nú. Erlent fjármagn hafi sína galla, og svipi til erlendrar skuldsetningar. Í mörgum tilvikum sé betra að fjárfestingin sé innlend.

Samtök iðnaðarins hafa áhyggjur af því að æ fleiri fyrirtæki neyðist til að flytja úr landi vegna gjaldeyrishafta, skorts á erlendri fjárfestingu og slakra lífskjara á Íslandi. Formaður samtakanna gagnrýndi á dögunum framgöngu ríkisstjórnarinnar í málefnum fyrirtækja. „Við höfum áhyggjur af því að það hefur ekki verið mótuð nein framtíðarsýn, hvorki fyrir fólk eða fyrirtæki. Það eru engin áform um að aflétta gjaldeyrishöftum, svo við sjáum ekki fyrir endann á þessu ástandi sem er,“ segir Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segist hafa heyrt af þessum áhyggjum í 4-5 ár, frá því höftin voru sett á. Hann segir eðlilegt að slík samtök lýsi reglulega slíkum áhyggjum og reyni að halda mönnum við efnið. Sigmundur segir að ríkisstjórn sín hafi frá upphafi unnið markvisst að því að skapa aðstæður sem leyfi afnám hafta. Stjórnvöld ráði þessu þó ekki ein, og menn þurfi að vinna saman til að það verði gerlegt.

Sigmundur tekur undir að bæta þurfi aðstæður fyrirtækja hér, og auka fjárfestingu. „Það er ekki skortur á fjármagni, það er til staðar. En það skortir verulega á að þeir sem ráða yfir því, meðal annars lífeyrissjóðirnir, fjárfesti í nýsköpun. Í þróun nýrra fyrirtækja. Og þessu þarf að breyta. Það þarf að gera fólki með góðar hugmyndir, nýjar hugmyndir um hvernig megi hefja verðmætasköpun, kleift að ráðast í þá framkvæmd og þar þurfa stjórnvöld kannski að koma að með því að liðka fyrir hvað varðar regluverkið sem lífeyrissjóðirnir starfa eftir. En þeir þurfa líka sjálfir að vera tilbúnir til að dreifa áhættunni og taka þátt í nýrri verðmætasköpun,“ segir Sigmundur. 

Nýsköpun innanlands er besti kosturinn

En það er ekki utanaðkomandi fjármagn, og við erum þá enn að hræra í sama pottinum. Er ekki nauðsynlegt að fá fjármagn að utan? „Ja, erlend fjárfesting í bland við innlenda er auðvitað æskileg. En erlend fjárfesting hefur þó ákveðinn galla umfram innlenda fjárfestingu sem er sá, að hún er í eðli sínu lík erlendri lántöku. Því að erlendur fjárfestir sem fjárfestir í öðru landi ætlar eðlilega að ná meiru út, með vöxtum, en hann setti inn. Sem sagt: þetta er í eðli sínu eins og erlend lántaka. Og Ísland skuldar töluvert í erlendri mynt. Svoleiðis að þegar er möguleiki á að fjármagna nýsköpun innanlands, ég tala nú ekki um nýsköpun á sviði útflutnings - þá er það besti kosturinn,“ segir Sigmundur.

Þannig að í rauninni ertu að segja að það sé betra að innlendir fjárfestar fjárfesti í fyrirtækjum heldur en erlendir? „Þegar það er möguleiki. Í sumum tilvikum þurfa menn á þekkingu að halda frá erlendum fjárfestum, að þeir komi inn, ekki bara með fjármagnið heldur líka með starfsaðferðir eða þekkingu sem nýtist, en þar sem vantar fyrst og fremst fjármagn til þess að borga fólki laun til þess að það geti unnið sína vinnu, þá er auðvitað æskilegra að sú fjármögnun verði til innanlands heldur en að menn séu að flytja inn fjármagn sem síðan streymir aftur út á endanum.“