Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erkibiskup dæmdur í 12 mánaða stofufangelsi

03.07.2018 - 14:14
Australian Archbishop Philip Wilson arrives for sentencing at Newcastle Local Court in Newcastle, Tuesday, July 3, 2018. Wilson, the most senior Roman Catholic cleric in the world to be convicted of covering up child sex abuse, was sentenced to 12 months
 Mynd: AP
Philip Wilson, erkibiskup Adelaide-borgar í Ástralíu, var í dag dæmdur í tólf mánaða stofufangelsi fyrir að halda hlífiskyldi yfir barnaníðingi innan kirkjunnar á áttunda áratug síðustu aldar. Wilson er hæst setti klerkur kaþólsku kirkjunnar sem hlotið hefur dóm í tengslum við barnaníð eða yfirhylmingu þess.

Erkibiskupinn var sakfelldur í maí fyrir að bregðast skyldu sinni til að tilkynna kollega sinn, prestinn James Fletcher, fyrir barnaníð. Fjölmargir barnungir altarisdrengir sem Fletcher hafði misnotað kynferðislega, báru vitni um að hafa trúað Wilson fyrir því að Fletcher hefði misnotað þá. Wilson þjónaði á þeim tíma við sömu kirkju. Fletcher var dæmdur fyrir brot sín gegn einum drengjanna árið 2004 og lést í fangelsi tveimur árum síðar. 

Hæstaréttardómarinn, Robert Stone, sagði Wilson ekki hafa sýnt nokkra iðrun né eftirsjá, segir í umfjöllun BBC. Hann afsalaði sér embættisskyldum sínum í kjölfar sakfellingarinnar en hefur þó ekki sagt af sér sem erkibiskup. Wilson var dæmdur til tólf mánaða fangelsisvistar. Erkibiskupinn, sem þjáist af Alzheimer, mun sitja dóminn af sér í stofufangelsi. 

Peter Gogarty, sem Fletcher braut á þegar hann var barn að aldri, sagði tilfinningar sínar blendnar. Hann teldi að Wilson hefði sennilega ekki fengið þá refsingu sem hann ætti skilið. Engu að síður væri þetta þó sögulegur úrskurður og því bæri að fagna. Annar fyrrverandi altarisdrengur, Peter Creigh, sem greindi frá því fyrir dómi að hann hefði sagt Wilson frá misnotkun prestsins árið 1976, var á sama máli. Stærsti sigurinn hefði unnist við sakfellingu Wilsons í maí. 

Í yfirlýsingu frá biskupaþingi Ástralíu kemur fram að biskuparnir voni að dómurinn færi fórnarlömbum Fletchers einhverskonar frið. Þar er tekið fram að kirkjan hafi gert fjölmargar breytingar á síðustu árum til að koma í veg fyrir misnotkun og yfirhylmingu.

Þó eru ekki allir sáttir við afstöðu kirkjunnar í málinu, sér í lagi þar sem yfirvöld hennar hafa hvorki svipt Wilson titlinum né afneitað Fletcher.  

Við dauða Fletcher árið 2006 vakti það mikla reiði þegar hann var jarðaður í prestagrafreitnum í Sandgate kirkjugarðinum í New South Wales fylki, þrátt fyrir að vera dæmdur barnaníðingur. Þá lagði kirkjan til gullskreyttan legstein úr marmara, þar sem prestsferli hans var gert hátt undir höfði. 

Emilía Sara Ólafsdóttir Kaaber
Fréttastofa RÚV