Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Erfitt að tengja alla samninga við laun

18.03.2015 - 14:46
Innlent · - · Kjaramál
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Kjarasamningurinn sem starfsmenn Norðuráls gerðu við fyrirtækið í gær kveður á um að launahækkanir verði tengdar launavísitölu. Byrjunarlaun verða 492.000 krónur í lok samningstímans. Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði segir að það muni ekki ganga að allir geri slíkan samning.

Kjarasamningurinn gildir til fimm ára og segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness á vef félagsins að þetta sé tímamótsamningur því það hafi ekki gerst áður að launahækkanir séu tengdar launavísitölu í kjarasamningi. 

Samningurinn gildir frá 1. janúar 2015 og frá þeim tíma tekur gildi umsamin upphafshækkun, auk 300.000 króna eingreiðslu til starfsmanna. Næsta launahækkun mun koma til framkvæmda 1. júlí á þessu ári, en sú hækkun mun taka mið af hækkun launavísitölunnar frá desember 2014 til júní 2015. Síðan mun koma önnur launahækkun 1. janúar 2016, sem tekur mið af hækkun launavísitölunnar frá júní 2015 til desember 2015. Eftir það munu koma 1. janúar ár hvert launahækkun sem tekur mið af 12 mánaða hækkun vísitölunnar, en samningurinn rennur út í lok árs 2019. Að auki hækkar orlofs- og fesemberuppbætur um 30 þúsund krónur strax, og svo samskonar hækkanir og önnur laun.

Byrjunarlaun verða 492 þúsund krónur

Á vef Verkalýðsfélags Akraness segir að eftir kjarasamning mun til dæmis verkamaður á byrjunarlaunum á vöktum í Norðuráli vera kominn upp í 492.000 kr. með öllu og eftir fimm ára starf er viðkomandi starfsmaður kominn í tæplega 580.000 krónur. Starfsmaður með 10 ára starfsreynsla er þá kominn upp í rúmlega 591.000 krónur.

Kynningarfundir um kjarasamninginn verða á næstu dögum og kosning um samninginn mun fara fram að afloknum kynningarfundum. Henni á að ljúka 26. mars.

Ekki allsherjar lausn

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sem hefur skoðað vinnumarkaðinn mikið, segir að áður fyrr hafi kjarasamningar almennra launamanna tekið mið af neysluvísitölu. Sú tenging var svo afnumin árið 1983. „Ég man ekki eftir að það hafi verið gert áður að vísa í launavísitölu. Það getur verið að kjararáð og kjaranefnd, sem ákvarða laun æðstu embættismanna ríkisins, hafi haft slíkar viðmiðanir en þó efast ég um það.“ Hins vegar hafi allmargir samningar verið gerðir þar sem vísað er í almennar hækkanir sem aðrir kunna að fá á samningstímanum. Það geti hins vegar verið erfitt að finna hvað teljast almennar hækkanir.

Þórólfur segir að ekki sé hægt að beita tengingum við launavísitölu á allan vinnumarkaðinn. „Ef allir gera samning um að fá hækkun í samræmi við launavísitölu plús eitthvað meira þá eru menn að reyna að fá kannski 130% af 100%. Það gengur ekki og þetta er ekki uppskrift sem hægt er að nýta almennt. Að auki gefur launavísitalan okkur líka upplýsingar um breytingar á eftirspurn eftir ólíku vinnuafli. Ef við komum okkur upp kerfi þar sem ekki geta orðið neinar breytingar á innbyrðis launahlutföllum erum við að draga úr skilvirkni í hagkerfinu. Ég skil verkafólk vel að vilja gera svona samning en þetta er ekki allsherjar lausn.“

Hefði rætt hlutaskipti

Um launin sjálf, sem verða 492.000 í lok samningstímans árið 2019, segir Þórólfur að þetta sé ekki hátt miðað við það sem gengur og gerist í Noregi, en þar voru byrjunarlaun í fyrra ríflega 520.000 íslenskar krónur í álverum. „Hlutfall launa í heildarkostnaði er lágt þar, auk þess sem fólk er með sérhæða þekkingu sem tekur langan tíma að þjálfa upp.“

Hann segir hins vegar að í svona löngum samningi hefði kannski verið hægt að hafa ákvæði um hlutaskipti. „Slíkt gæti verið leiðin til að komast hjá þeim vanda sem alltaf hefur verið um að semja. Sjómenn eru tildæmis með hlutaskipti og þess vegna hafa ekki verið átök þar þó að þeir hafi verið samningslausir í nokkur ár.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV