Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Erfitt að rekja ferðir fólks sem greinist með veiruna

Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Það hefur reynst erfitt að rekja ferðir fólks sem hefur greinst með kórónaveiruna hér á landi. Þetta segir Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum. Hún segir að mikil vinna fari í að hringja í fólk sem greinist jákvætt. Margir eigi von á þeim fréttum, en aðrir fái áfall.

„Ég var á bakvaktinni í gærkvöldi. Við erum reyndar búin að auka fjöldann á vaktinni vegna þess að það er geysilega mikil vinna sem er fólgin í að hafa samband við einstaklinga sem greinast á hverjum degi. Og eins og þið vitið, þá eru að koma tilkynningar á kvöldin um ný smit. Þannig að við erum með lækna og hjúkrunarfræðinga sem eru að hringja í einstaklinga. Það var alveg til að verða miðnættis í gær,“ sagði Bryndís á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Þannig að álagið fer stigvaxandi?

„Já. Geysimikið. Þetta eru kannski átta eða tíu einstaklingar eftir klukkan átta, níu á kvöldin og þetta eru dálítið flókin og löng símtöl. Aðstæður fólks geta verið dálítið mismunandi. Þannig að þetta er geysilega lærdómsríkt en þetta er óþekkt staða, eins og maður segir.“

Svolítið flókið

Hvernig tekur fólk þessum upplýsingum frá ykkur?

„Það er mjög misjafnt. Sumir hafa kannski gert ráð fyrir því og eru ekkert hissa. Aðrir fá svona pínu áfall. Fólk er búið að vera veikt og veit að það er að fara í þessa sýnatöku og hefur kannski ákveðin tengsl eða útsetningu eða slíkt. En svo koma upp tilfelli þar sem staðan er öðruvísi, þetta snýst um foreldra og börn, tengsl við aldraða og eins og kom fram í fréttum í gær og fyrradag, þá eru skólar og leikskólar og jafnvel ákveðin sambýli þar sem eru umönnunaraðilar. Þannig að þetta er búið að vera svolítið flókið.“

Hvaða leiðbeiningar og upplýsingar fylgja þessum skilaboðum ykkar?

„Þetta eru náttúrulega símtöl og ég veit að rakningarteymið hefur bent fólki á að opna landlaeknir.is og það er farið yfir leiðbeiningar um einangrun. Þannig að þetta er gert símleiðis og farið yfir þessi tilmæli með einstaklingunum. En þó Íslendingar séu mikið á netinu er þetta flókið fyrir suma og kannski helst eldri einstaklingana. En það þarf að lesa í gegnum þessar leiðbeiningar og fara yfir. Og enn og aftur bendi ég á, af því að það hefur verið smá ruglingur eða misskilningur, að þetta er sóttkví eða einangrun. Og við tölum um einangrun hjá þessum einstaklingum sem eru vissulega jákvæðir, og yfirleitt veikir. Hins vegar eru sumir sem eru eiginlega búnir að ná sér þegar þeir fá símtalið, og eru lítið veikir. En þeir eru samt í einangrun af því að sýnið er jákvætt. En einstaklingar í kringum þetta fólk og þeir sem eru útsettir, þeir eru í sóttkví. Það er stigsmunur á því þó það sé skörun, vissulega.“

Leynilögregluátak

Hver er svona helsti munurinn?

„Þeir sem eru í sóttkví eru eins og gefur að skilja aðeins frjálsari. Og þetta er reyndar flókið þegar við erum með einstakling í einangrun og fjölskyldumeðlimir fara í sóttkví. Og það er reynt að skilja að á heimilinu, meta hvort hluti fjölskyldunnar getur hreinlega fært sig um set í annað húsnæði eða eitthvað slíkt. En ég myndi segja að grunnskilaboðin séu hreinlæti, handþvottur og að spritta fleti í kringum þá sem eru vissulega smitaðir eða sýktir. Hins vegar göngum við út frá því að þeir sem eru útsettir og eru þá í sóttkví, þeir munu væntanlega ekki allir sýkjast eða veikjast. En vitandi það að flestir byrja að smita út frá sér einhverjum einum til tveimur dögum áður en þeir veikjast. Þannig að tilgangurinn með sóttkví er að tryggja að ef einhver veikist eftir tvo til fjóra daga frá útsetningu, þá er hann allavega búinn að hafa mjög hægt um sig og ekki verið í snertingu við marga einstaklinga. Og það gerir þessa vinnu rakningarteymisins mun auðveldari.“

Og fólk er væntanlega að aðstoða rakningarteymin, og þarf að fara í það strax þegar það fær svona símtöl, að hjálpa til við að rekja hverja það hefur verið að hitta?

„Já. Svo hefur rannsóknarlögreglan verið í þessu líka þannig að þetta er svolítið eins og leynilögregluátak. Þetta eru símtöl og það er farið yfir ferðir fólks. Og það hefur reynst erfitt. Og eins og við heyrum í fréttum, þá eru margir útsettir og fjöldinn í sóttkví fer bara stigvaxandi,“ segir Bryndís.