Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erfitt að bakka með rauðkálið á litlu jólunum

Mynd: Guðmundur Pálsson / Guðmundur Pálsson

Erfitt að bakka með rauðkálið á litlu jólunum

23.11.2019 - 14:26

Höfundar

„Við erum allir með ólíkar ástæður fyrir því að neyðast til að halda jólin saman,“ segir Árni Vilhjálmsson, en hann, Friðgeir Einarsson og Ragnar Ísleifur Bragason koma saman í jólaútvarpsleikriti Ríkisútvarpsins sem Bjarni Jónsson leikstýrir og er nú í tökum. Saman mynda fjórmenningarnir leikhópinn Kriðpleir.

Strákarnir vinna mikið með eigin persónur í öllum sínum verkum, persónurnar heita iðulega Friðgeir, Ragnar og Árni eins og leikararnir, og leikritið Litlu jólin er sjálfstætt framhald af Bónusferðinni sem flutt var í fyrra í Útvarpsleikhúsinu. „Einn vill bara halda jólin einn einhvers staðar, annar er að reyna að afstýra því að þau séu of dýr, og þriðji er í vandræðum með klósettið heima hjá sér,“ heldur Árni áfram um efni leikritsins. Leikritið er í tveimur hlutum og verður flutt 22. desember og svo á aðfangadag. „Þeir eru sem sagt í vandræðum hver á sinn hátt. Og reyna að safna liði og halda jólin,“ segir Ragnar Ísleifur Bragason.

Leikstjórinn Bjarni segir að persónugallerí leikhópsins hafi verið víkkað út og núna séu makar með í spilinu. „Það er dálítið nýtt svæði fyrir hópinn að fara út í, að vera ekki bara að skrifa efni fyrir þrjá miðaldara menn,“ segir Bjarni. „Núna búum við til þær aðstæður að þeir neyðast til að halda jólin saman og það býður náttúrulega upp á ákveðna konflikta eins og margir kannast við, þar sem á jólunum neyðist fólk til að hanga með fólki sem það kannski vill ekkert vera með alla daga,“ bætir Friðgeir Einarsson við. Ragnar Ísleifur minnist á það að allir séu með sínar jólahefðir. „Það eru allir með sína hugmynd um jólin, það er erfitt fyrir suma að bakka með að rauðkálið sé heimagert en ekki keypt úti í búð. Það má kannski hafa grjónagraut, og alls ekki ís. Opna einn pakka eftir fimm eða einn pakka í hádeginu. Þegar þetta allt sameinast, sérstaklega hjá svona ólíkum karakterum eins og þessum og þeirra fjölskyldum, þá er bara voðinn vís og allt getur gerst.“

Að sögn er eitt helst einkenni á verkum Kriðpleirs hingað til stúdía á meðvirkni og stjórnun. „Karakterar eru sífellt að reyna að ná yfirhöndinni, hver yfir öðrum, eða þurfa að lúta í lægra haldi. Meðvirkni, stjórnunarþörf, og hver ber ábyrgð á hinu og þessu,“ segir Bjarni. „En við erum auðvitað öll að kljást við þetta, að vera annað hvort undirgefin eða dómínerandi, og milliveginn sem við erum alltaf að reyna að finna í lífinu,“ segir Árni. Friðgeir bætir við að persónur í þessu verki sem og öðrum eftir hópinn séu margar hverjar í mikilli sjálfsvinnu á misjafnan máta. „Það kannski kallast á við margt sem raunverulegu persónurnar eru að takast á við í sínu lífi.“

En eru verkin sem Kriðpleir hafa sett á svið partur af þessari sjálfsvinnu? „Já, ég myndi segja það,“ segir Friðgeir. „Við þroskumst og persónurnar þroskast líka í svona hliðstæðum heimi. Stundum blandast það saman.“ Árni tekur undir þetta. „Kriðpleir er ákveðið tækifæri til að leggja spilin á borðið. Maður verður að skoða sjálfan sig heiðarlega. Til þess að geta skapað þessar persónur, og viðurkenna hvernig maður er.“

Guðmundur Pálsson ræddi við leikhópinn Kriðpleir í Síðdegisútvarpinu.

Tengdar fréttir

Leiklist

Á mörkum þess að vera eltihrellir

Leiklist

Bónusferðin

Leiklist

Eru alltaf að leika sjálfa sig

Leiklist

Hversdagsleikinn í sinni hreinustu mynd