Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Erfiður vetur framundan í ferðaþjónustunni

25.11.2019 - 08:42
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Það stefnir í erfiðan vetur í ferðaþjónustu víða um land og samdráttur er fyrirsjáanlegur í gistingu. Við skort á flugsætum til landsins fækkar erlendum ferðamönnum og þá róa hótelin á önnur mið, með námskeiðum og veisluhöldum.

Eftir betra sumar en reiknað var með í ferðaþjónustu á landsbyggðinni og gott haust, stefnir nú í mikla fækkun erlendra ferðamanna. Víða er mun minna bókað í gistingu en áður og samdrátturinn sums staðar allt að 20%.

Minna sætaframboð til landsins

„Við erum að sjá fleiri sem eru að áætla lokanir núna í vetur heldur en síðasta vetur, segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Og hún segir minna sætaframboð til landsins valda þessu fyrst og fremst. „Við höfum verið að sjá til dæmis að vetri Bandaríkjamenn skila sér mikið til okkar. Þeir hafa verið duglegir að ferðast um landið. Og þeir voru mikið í Wow-air vélunum sem dæmi.“ Þá hafi breskum farþegum fækkað mikið og fleiri erlendum ferðamönnum sem ferðast hafi um landið allt yfir veturinn.

Námskeiðahald og matarveislur

Og þegar erlendu ferðamennirnir skila sér ekki, færa fyrirtækin sig yfir í annarskonar starfsemi. Það eru haldin námskeið, stórar matarveislur og ýmislegt fleira, til þess að laða að íslenska viðskiptavini. Þarna hafa margir náð góðum árangri, en þessi viðskipti eru aðallega bundin við helgar og áfram vantar því samfellda gistingu. „Ég held að það sé auðvitað gott að menn fari og finni fleiri leiðir og séu þá ekki með öll eggin í einni körfu. En við viljum auðvitað sjá þessa atvinnugrein þróast þannig að það sé hægt að reka hana allt árið á erlendum ferðamönnum,“ segur Arnheiður.

Hætt við að einhverjir gefist upp

Og það sé líklegt að einhver fyrirtæki muni ekki þola þennan mikla samdrátt og hreinlega hætta rekstri. Allir séu að taka til í rekstrinum og kanna hvernig best sé að nýta starfsfólk og innviði. „En það er ekki endalaust hægt að taka til,“ segir hún.   

Þurfi ekki að koma á óvart

Og þessi þróun þurfi ekki að koma á óvart og við þessu hafi verið varað allt frá því WOW air hvarf af markaði. Þá hefði þurft að ráðast í markaðsátak til að auka áhuga flugfélaga og ferðaskrifstofa á landinu. „Nei þetta kemur alls ekki á óvart og menn hafa verið að búa sig undir þetta. En þrátt fyrir auðvitað að menn hafi búist við þessu þá er það alltaf erfitt þegar skellurinn byrjar síðan,“ segir Arnheiður.