Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Erfði íbúð en fær afslátt af stimpilgjaldi

21.06.2019 - 21:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirskattanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að íbúðareigandi, sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu neitaði um helmingsafslátt af stimpilgjöldum, hafi átt rétt á afslættinum.

Sá afsláttur er veittur við kaup á fyrstu eign til að koma til móts við fólk. 

Sýslumaðurinn taldi að íbúðareigandinn ætti ekki rétt á afslættinum þar sem hann hafði áður erft íbúð í kjölfar fráfalls föður síns, og var því þinglýstur eigandi hennar. Hann var þá tíu ára gamall. 

Yfirskattanefnd leit til vilja löggjafans til að veita eigi stuðning við kaup á fyrstu eign og úrskurðaði að líta ætti fram hjá þeirri íbúðareign sem kom til vegna arftöku hans að fasteigninni. Því ætti hann nú rétt á helmingsafslættinum.

Fleiri dæmi eru um að einstaklingum, sem erft hafa eignarhluta í íbúð í kjölfar fráfalls foreldris, sé ekki veittur afsláttur af stimpilgjöldum.