Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Er mark takandi á PISA-könnuninni?

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - www.fnv.is
Eigum við að taka mark á þessu prófi sem bendir til þess að lesskilningi, stærðfræði- og náttúruvísindalæsi íslenskra nemenda hafi hrakað mikið síðastliðin 15 ár? Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, og Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri matssviðs Menntamálastofnunar ræddu þetta í Spegli dagsins.

„Við getum verið nokkuð viss um að prófið gefi rétta mynd af stöðunni. Niðurstöðurnar úr PISA ríma mjög vel við upplýsingar sem við höfum aflað um stöðu barna í lesfimi og niðurstöðum samræmdra prófa,“

Segir Gylfi Jón. 

„Ég held það hljóti að hafa áhrif að við erum með Skóla án aðgreiningar og látum alla nemendur 10. bekkjar taka prófið,“

Segir Hrefna. 

Mynd: RÚV / www.fnv.is

PISA-prófið hefur fengið sinn skerf af gagnrýni

PISA-prófið var fyrst lagt fyrir árið 1997. Það er umdeilt. Sumir eru hrifnir af því, segja að þó að það sé ekki fullkomið gefi það einhverja mynd af stöðu ríkja, aðrir telja það smætta nám niður í örfá mælanleg markmið og leiða til of mikillar áherslu á stöðluð próf.

Sumir gagnrýnendur benda á að prófin gefi ákveðna mynd af stöðunni í hverju landi en veiti engar upplýsingar um orsakir og afleiðingar. Michael Barber, fyrrum ráðgjafi ríkisstjórnar Tonys Blair, sagði í samtali við The Economist, árið 2013, að lítil fylgni væri milli þess hvernig skólakerfið í hverju landi væri uppbyggt og hvernig þeim reiddi af í PISA. Nálganir þeirra ríkja sem best standa, Singapúr, Kína, Japans, Finnlands, Eistlands og Kanada, eru afar ólíkar. Í sumum yfirburðalöndum eru kennarar hálaunaðir, í öðrum ekki. Sums staðar, svo sem í Singapúr, er mikið lagt upp úr miðstýringu í kennaranámi, annars staðar ekki. Sums staðar er nemendum skipað í hópa eftir getu, annars staðar ekki og bekkir eru misfjölmennir. 

Skiptir menningin mestu?

Í grein Economist segir að þau ríki sem standi vel ráði góða kennara, ýti undir starfsánægju þeirra, fylgist vel með árangri þeirra og grípi inn í, þegar illa gangi. Fram kemur að menning hvers ríkis spili hugsanlega mun stærra hlutverk en menntakerfið. Svo virðist sem árangur tengist sjálfsmynd þjóðarinnar og viðhorfum til menntunar. 

Skoruðu á Schleicher að slaufa prófinu

Árið 2014 sendu yfir hundrað fræðimenn áskorun til Andreas Schleicher, forstjóra PISA og óskuðu eftir því að hann hætti að leggja prófið fyrir í núverandi mynd. Gagnrýnendur halda því fram að PISA-prófið hafi of mikil og of neikvæð áhrif á menntakerfi ríkja, mörg þeirra hafi gripið til skyndiátaka á grundvelli niðurstaðna þess þrátt fyrir að rannsóknir sýni að það taki áratugi að breyta menntakerfum. Þá er Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, gagnrýnd fyrir skort á hlutlægni, stofnunin leggi fyrst og fremst áherslu á efnahagslegt hlutverk skóla, við að undirbúa ungt fólk fyrir þátttöku í atvinnulífinu. Minna sé lagt upp úr hlutverki skólanna við að undirbúa nemendur undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. Þeir nefna að OECD eigi í viðskiptum við hin ýmsu fyrirtæki á sviði menntavísinda sem hagnist á neikvæðum niðurstöðum. Þau selji skólum námstæki sem stuðla eiga að betri árangri á PISA.

Pisa-turninn halli verulega

Tveir bandarískir prófessorar, Pasi Sahlberg og Andy Hargreaves, sendu frá sér eins konar svar við áskorun fræðimannanna og annarri gagnrýni í fyrra. Þeir tóku undir gagnrýnina, sögðu Pisa-turninn halla all verulega. Þeir sögðu þó margt gott við könnunina. Ríki væru ekki lengur stödd í þokunni, fullviss um að þeirra menntakerfi væri best allra. Bandaríkin og Bretland hafi til dæmis áttað sig á því að þau standa verr en mörg Asíuríki og við það hafi dregið úr þrýstingi um að stytta háskólanám kennara, til dæmis. Prófin hafi varpað ljósi á neikvæð áhrif grunnskóla sem reknir eru í hagnaðarskyni á námsárangur nemenda í Svíþjóð og þau hafi beint sjónum fólks að menntakerfinu í Finnlandi og Kanada. Þá hafi stofnunin lagt ríka áherslu á mikilvægi jafnréttis allra til menntunar, að bestu menntakerfin séu þau sem sameina jöfnuð og gæði. Án PISA hefðu þessar áherslur hugsanlega ekki ratað í stefnuskrár ríkja á borð við Bandaríkin. Prófessorarnir segja að standa þurfi vörð um PISA. Það þurfi þó líka að gera meira til þess að stemma stigu við því að ríki grípi til örvæntingarfullra og vanhugsaðra aðgerða til þess að hækka skorið.  Þeir gagnrýna að einkafyrirtækjum sé falið að hanna prófin. Þá benda þeir á að einnig þurfi að horfa til annarra mælikvarða, svo sem þeirra sem mæla mannréttindi og velferð barna í skólum. 

Er aðferðafræðin nógu góð? 

Aðferðafræðin hefur líka fengið sinn skerf af gagnrýni. Í flestum ríkjanna 72 eru tekin úrtök, sem telja um 4000 fimmtán ára nemendur. Fyrst er tekið lagskipt úrtak 100 skóla og svo eru um 40 nemendur valdir af handahófi til þess að taka þátt í hverjum þeirra. Í fámennum ríkjum á borð við Ísland og Lúxemborg er prófið lagt fyrir alla 15 ára nemendur. Í niðurstöðum PISA fyrir Ísland ætti því ekki að vera úrtaksskekkja. Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, segir að úrtökin séu gæðavottuð og skýrar reglur gildi um undanþágur frá þátttöku. Sumir telja þó samanburðinn skakkan. Í skýrslu sem menntavísindasvið Stanford-háskóla gaf út árið 2013 kemur fram að árangur bandarískra nemenda á prófinu sé bágur vegna þess að hátt hlutfall nemenda við bandaríska skóla eigi foreldra sem standi illa félagslega eða efnahagslega. Þá hafi úrtakið verið gallað, valdir hafi verið skólar þar sem hlutfall nemenda úr efnalitlum fjölskyldum var óvenjuhátt. Í fræðigrein sem birtist í spænska tímaritinu Relieve, fyrr á þessu ári, er aðferðafræðin við að velja þátttakendur sögð ógagnsæ. Gert sé ráð fyrir því að þeir hópar sem valdir eru til þátttöku í hverju landi séu sambærilegir, en um það megi deila. Fram kemur að svarhlutfall hafi í gegnum tíðina verið afar lágt; 15% árið 2006, 20% árið 2012. Stundum er nemendum með fötlun eða innflytjendum sem ekki hafa náð færni í tungumálinu sleppt við að taka prófið, hlutfall þeirra sem ekki taka það má þó ekki vera hærra en sem nemur 5% af úrtakinu. Í greininni kemur fram að ekki liggi fyrir hvort mikill munur sé  á hlutfalli þeirra sem ekki taka þátt eftir löndum. Þá gerir greinarhöfundur athugasemdir við þá staðreynd að ríkin sem taka þátt eru misfjölmenn en úrtökin alls staðar svipað stór. 

Hlýða má á umræður um marktækni PISA-prófsins og æskileg viðbrögð við niðurstöðum þess í spilaranum hér fyrir ofan.