Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Enn verulegur jarðhiti í Bárðarbungu

17.12.2017 - 14:36
Mynd með færslu
 Mynd: Tómas Guðbjartsson
Enn er verulegur jarðhiti í Bárðarbungu og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Á myndinni hér að ofan má sjá tvo stærðarinnar sigkatla sem mynduðust í kringum öskjusigið 2014, þegar gaus í Holuhrauni og sjö hundruð metra askja seig um allt að sextíu metra í Bárðarbungu. Á veturna skefur snjó í dældirnar og geta þær jafnvel lokast. Svo var ekki þegar Tómas Guðbjartsson og Ragnar Axelsson flugu yfir Bárðarbungu í vetrarsólinni fyrr í vikunni, heldur stóð þvert á móti gufa úr kötlunum.
Mynd með færslu
 Mynd: Tómas Guðbjartsson

Þessir sigkatlar byrjuðu að myndast tæpu ári eftir að öskjusig hófst í Bárðarbungu og sumarið 2016 var komið gat niður í gegnum jökulinn. Síðastliðið sumar sást niður í berg sem hefur verið undir jökli í árhundruð, ef ekki þúsundir ára. „Þarna var sáralítill jarðhiti fyrir öskjusigið 2014, þrjár mjög litlar sigdældir sem sáust öðru hvoru, en nú er jarðhiti á mörgum stöðum. Það eru enn að myndast sigkatlar í Bárðarbungu og sér ekki fyrir endann á því,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur.

Mynd með færslu
 Mynd: Tómas Guðbjartsson

Þar sem ísinn er þykkastur yfir Bárðarbungu er hann allt að átta hundruð metrar. Þessir katlar eru á öskjurimanum þar sem ísinn er hundrað og tuttugu metra þykkur og skýrir það hversu krappir katlarnir eru. 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir