Enn er verulegur jarðhiti í Bárðarbungu og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Á myndinni hér að ofan má sjá tvo stærðarinnar sigkatla sem mynduðust í kringum öskjusigið 2014, þegar gaus í Holuhrauni og sjö hundruð metra askja seig um allt að sextíu metra í Bárðarbungu. Á veturna skefur snjó í dældirnar og geta þær jafnvel lokast. Svo var ekki þegar Tómas Guðbjartsson og Ragnar Axelsson flugu yfir Bárðarbungu í vetrarsólinni fyrr í vikunni, heldur stóð þvert á móti gufa úr kötlunum.