Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enn straumlaust í Norðurfirði og þak fauk af

12.12.2019 - 12:57
Þakið fauk af Valgeirsstöðum í Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum í aðventulægðinni 2019.
 Mynd: Aðsend
Á Vestfjörðum er alls staðar komið á rafmagn – utan Árneshrepps á Ströndum. Vestfjarðarlína er komin í rekstur á ný en Breiðadalslína 1 á norðanverðum Vestfjörðum er enn biluð og varaaflstöð í Bolungarvík því keyrð áfram. Í Árneshreppi hefur verið straumlaust í tvo daga og er það enn.

Ekki er hægt að senda aðstoð í Árneshrepp vegna ófærðar og bændur standa þar í því að reyna að slá út rafmagnsstaura sem liggja að eyðibýlum til að reyna að ná rafmagni á byggða bæi.

Guðlaugur Ágústsson, bóndi á Steinstúni í Norðurfirði, er kominn í GSM samband eftir að hafa verið sambandslaus síðan sló út á þriðjudaginn. Hann segir að reynt var að slá út staura í morgun en að það tolli ekki inni. Salt sé á einangraranum á staurum sem liggja bæði út að Felli og Munaðarnesi sem þyrfti að þrífa. Það er erfitt þar sem mikil hæð er á þeim og vindur hvass.

Orðið kalt í húsum

Þá segir hann að mikið sé farið að kólna í húsum. „Þetta er farið að vera ansi kalt hérna hjá fólki sem hefur engan hita til vara eða neitt rafmagn. Eins og hérna úti í Norðurfirði, það er ástand þar, enginn hiti eða varaafl eða neitt,“ segir Guðlaugur.

Þakið fauk af skála Ferðafélagsins

Eignartjón hefur orðið í Árneshreppi í fárviðrinu. Gluggar á Finnbogastaðaskóla eru brotnir og þakið flettist að miklu leiti af skála Ferðafélags Íslands að Valgeirsstöðum í Norðurfirði. Guðlaugur segir ótrúlegt að bárujárnið hafi ekki skemmt neitt þegar það fauk af þakinu.

„Svo þegar birti sá ég að þetta lá eins og hráviði út um allt í kringum fjárhúsin mín. en þetta var alveg ótrúlegt, ég var gáttaður á því að það skyldi ekki einu sinni vera gat á báruplastglugga eða neinu, það sá ekki á  neinu hjá mér nema girðingarnar farnar í köku hjá mér eftir þetta drasl. En ótrúlegt að sjá hvað stór stykki úr brakinu eru langt frá þessu án þess að hafa komið við neitt af útihúsunum mínum þarna niður frá,“ segir hann.

Þakið fauk af Valgeirsstöðum í Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum í aðventulægðinni 2019.
Töluvert tjón varð á Valgeirsstöðum