Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enn óljóst hvort Katrín muni funda með Pence

01.09.2019 - 14:08
Mynd: Silfrið / RÚV
Enn er ekki ljóst hvort Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra muni eiga fund með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, þegar hann kemur til landsins nú á miðvikudaginn. Hún hefur miklar áhyggjur af afturförum í friðsamlegum samskiptum.

Katrín hefur verið gagnrýnd fyrir það að vera á ársfundi norrænu verkalýðshreyfinganna á þeim dögum sem Pence sé á landinu og fyrir að vilja ekki funda með honum. Hún sagði í Silfrinu fyrir hádegi að slíkt ætti ekki við nein rök að styðjast. „Þess vegna kalla ég þetta nú hálfgert uppnám út af litlum sökum. Hingað kom nú Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna og við áttum góðan fund fyrr á þessu ári. Þar sem ég einmitt fór yfir málefni norðurslóða, loftslagsmál sérstaklega og sérstakt hugðarefni mitt, kjarnorkuafvopnun, sem ég hef raunar líka rætt við Donald Trump sjálfan á NATO fundi hér í fyrra þannig ég hef aldrei nálgast alþjóðleg samskipti þannig að maður eigi eingöngu að tala við þá sem eru manni sammála enda myndi ég nú ekki tala við marga þá.“ 

Nú sé verið að skoða hvort hún og Pence geti hist þegar hún kemur til landsins en ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum. Hún viðurkennir það að hún hafi miklar áhyggjur af aukinni vígvæðingu á Norðurslóðum en einnig annars staðar. „Ég hef áhyggjur af þessari auknu víðvæðingu alveg sama hvaðan hún kemur. Það snýst ekki bara um Bandaríkjamenn heldur líka Rússa og Kínverja af því ég tel ekki að þetta sé leiðin til friðsamlegra samskipta. Ég hef mjög miklar áhyggjur líka af því hvað við erum að sjá gerast með afvopnunarsáttmála á sviði kjarnorkuvopna. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því að þeir séu í algjöru uppnámi þannig mér finnst við já, vera í ákveðinni afturför þegar kemur að friðsamlegum samskiptum sem bara samfélag manna og það er sérstakt áhyggjuefni þegar stærsta ógnin sem við okkur blasir er ekki af hernaðarlegum toga heldur loftslagsváin.“

 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV