Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enn lengist biðin hjá Icelandair eftir MAX-vélunum

17.12.2019 - 09:21
Max vél
 Mynd: Fréttir
Icelandair gerir nú ráð fyrir því að Boeing 737 MAX-vélarnar, sem hafa verið kyrrsettar vegna tveggja flugslysa, verði komnar í rekstur í maí en ekki mars eins og áður hafði verið talið. Ákvörðun flugfélagsins hefur lítil áhrif á farþega og flugáætlun félagsins á þessu tímabili.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Þar kemur fram að Icelandair hafi þegar tekið á leigu tvær Boeing 737-800 vélar og gerir auk þess ráð fyrir að bæta þriðju leiguvélinni við. „Á næstu dögum verður haft samband við þá farþega sem breytingarnar hafa áhrif á.“

Boeing tilkynnti í gær að fyrirtækið ætlar að fresta framleiðslu á MAX-vélunum í næsta mánuði. Icelandair segist fylgjast áfram með þróun mála en félagið hefur í tvígang gert bráðabirgðasamkomulag við Boeing um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir. Áframhaldandi viðræður við Boeing um að fá heildartjón vegna kyrrsetningarinnar bætt standa enn yfir, segir í yfirlýsingu frá Icelandair.