Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enn hvasst á austanverðu landinu

26.02.2019 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Ofsaveðrið sem gekk yfir norðaustan, austan- og sunnanvert landið í nótt og í morgun hefur að einhverju leyti gengið niður. Enn er þó hvasst og gul viðvörun í gildi á Suðausturlandi, Austurlandi og Austfjörðum. Vegurinn á milli Djúpavogs og Hafnar er enn lokaður. Björgunarsveitir höfðu í nógu að snúast í morgun vegna veðurofsans.

Um hundrað björgunarsveitarmenn voru kallaðir út í morgun, allt frá Eyrarbakka og Stokkseyri að Vopnafirði. Flest voru útköllin á Suðausturlandi og Austurlandi, á milli Hafnar í Hornafirði og Djúpavogs. Hjá Björgunarfélagi Hornafjarðar voru 25 kallaðir út. „Það fór aðeins að lægja á milli eitt og hálf tvö. Þetta er svona að detta niður núna,“ segir Jens Olsen, formaður félagsins í samtali við fréttastofu um klukkan 15:00 í dag. Engar beiðnir úr aðstoð bárust eftir klukkan 12:30. 

Útköllin voru af ýmsum toga. „Þetta voru þakplötur og þakkantar, aðallega. Svo fórum við upp í Lón, upp í Hvaldal, eða Hvalnesskriður og vorum að aðstoða þar fólk þar eftir að rúður brotnuðu í bílum og komum þeim til byggða. Ég held að það hafi verið um 14 manns,“ segir Jens. 

Vegurinn á milli Hafnar og Djúpavogs er enn lokaður vegna óveðurs. Þá er gul viðvörun enn í gildi á Suðausturlandi, Austurlandi, Austfjörðum og á miðhálendinu. 

Fréttin var uppfærð klukkan 18:25 eftir að appelsínugular veðurviðvaranir féllu úr gildi. Nú eru gular viðvaranir í gildi.