Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Enn hætta vegna mengunar við Holuhraun

25.03.2015 - 19:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þótt búið sé að opna fyrir umferð almennings um svæðið í kringum Holuhraun, verður fólk áfram að vara sig á gasmengun. Starfsmenn Veðurstofunnar fóru í leiðangur að hrauninu í gær, til að bæta við gasmælum.

Ferðin upp að Holuhrauni tók um sex tíma frá Möðrudal og sóttist seint vegna krapa á leiðinni. Um leið og þangað var komið brast á með blíðu og starfsmenn Veðurstofunnar réðust beint í verkið. „Við erum að setja upp tvo gasmæla frá Veðurstofunni og þrjá, mögulega fjóra gasmæla frá Umhverfisstofnun. Við erum að fara að setja upp þrjá vatnshæðarmæla og tvær nýjar vefmyndavélar, sem munu sérstaklega horfa á jökulsporðinn þar sem við búumst við jökulhlaupi ef það kemur undan jökli,“ segir Baldur Bergsson, sérfræðingur í gasmælingum hjá Veðurstofu Íslands. 

Gasmengun var einn stærsti þátturinn sem horfa þurfti til þegar ákveðið var að opna svæðið í kringum Holuhraun fyrir almenningi. Ferðafólk þarf að vera vakandi fyrir hættunni. „Við búumst við því að þegar það verða stillir dagar þá mun gas geta safnast upp í lægðum og það getur verið stórhættulegt.“

Full ástæða sé til að hafa allan varann á. Mengunin geti verið lyktarlaus. „Hún getur verið lyktarlaus já, til dæmis kolmonoxíðmengum sem við höfum séð, þegar við fórum síðast upp í gíg og sáum oft hérna á meðan gosið var. Svo er brennisteinsdíoxíð, þetta gas sem að finnum þessa sterku lykt af. Þegar það fer yfir ákveðinn styrk þá finnum við ekki lengur lykt af því. Þá fyrst er það orðið hættulegt. Þannig að þetta er eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af,“ segir Baldur.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV