Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Enn hætta á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum

15.01.2020 - 03:58
Mynd með færslu
 Mynd: Steinunn Guðný Einarsdóttir - Aðsendar myndir
Reiknað er með því að svæðið fyrir ofan Flateyri sé búið að tæma sig af snjó og því ekki búist við frekari snjóflóðum þar að svo stöddu. Rögnvaldur Ólafsson, aðgerðarstjóri á samhæfingamiðstöð Almannavarna ríkisins í Skógarhlíð segir að annars staðar í Önundarfirðinum sé þó enn hætta á snjóflóðum sem og annars staðar á norðanverðum Vestfjörðum.

Miðað við lýsingarnar sem fengist hafa frá Suðureyri má búast við að enn sé töluvert af snjó þar sem geti komið niður. Annars staðar á norðanverður Vestfjörðum hafa verið gerðar minni ráðstafanir. Á Ísafirði og Bolungarvík hefur fólk verið beðið um að færa sig frá einstaka sveitabæjum.

Aðspurður um stærð flóðanna á Flateyri segir Rögnvaldur að þau hafi verið afar kraftmikil. Þau hafi verið á pari við flóðin sem féllu þar fyrir 25 árum. Ólíkt því sem gerðist þá féll flóð úr Bæjargilinu hins vegar fyrr í kvöld. Það gerði það ekki árið 1995 og var yfirvofandi á meðan björgunarstarf fór fram á Flateyri. 

„Þegar birtir og veður gengur betur niður geta snjóflóðasérfræðingar farið að kanna aðstæður betur,“ segir Rögnvaldur. Hann bætti við að þær aðstæður geti vissulega komið upp að fólki líði illa, sérstaklega á þessu svæði í ljósi sögunnar. 

„Það er hætt við að svona atburðir ýfi upp gömul sár. Slík þjónusta er í boði fyrir vestan en ef á þarf að halda kemur Rauði krossinn einnig til aðstoðar,“ segir Rögnvaldur.