Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enn gýs í fjallinu Merapi

27.03.2020 - 08:58
epa08325731 A handout photo made available by Indonesia's National Agency for Disaster Countermeasure (BNPB) shows Mount Merapi volcano spewing volcanic ash as seen from Yogyakarta, Indonesia, 27 March 2020. The volcano erupted on 27 March sâ??pewing a 5000-meter column of smoke and ash into the sky.  EPA-EFE/BNPB/HANDOUT HANDOUT, EDITORIAL USE ONLY, NO SALES, BEST QUALITY AVAILABLE HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - BNPB
Eldgos hófst í dag í Merapi, virkasta eldfjalli Indónesíu. Þetta er í annað skipti í þessum mánuði sem gýs í fjallinu. Öskustrókur stendur af því um fimm kílómetra í loft upp. Askan hefur dreifst um nokkurra kílómetra svæði kringum gíginn.

Eldsumbrotin gerðu engin boð á undan sér, alltént vöruðu yfirvöld ekki við því að gos væri í nánd. Enn hafa engar fréttir borist af tjóni af völdum gossins. Talsmaður almannavarna á eyjunni Jövu hvetur fólk til að halda ró sinni.

Fyrr í þessum mánuði spúði Merapi ösku yfir Yogyakarta, menningarhöfuðborg Indónesíu, og borgina Solo í nágrenninu. Skyggni var þá svo slæmt að loka varð flugvelli í grenndinni. Síðasta stórgos í Merapi varð árið 2010. Þá létust yfir þrjú hundruð manns og 280 þúsund sem bjuggu í grennd við fjallið urðu að flýja að heiman.