Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Enn eru kettir drepnir í Hveragerði

25.06.2018 - 13:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjölda margir kettir hafa fundist dauðir í Hveragerði undanfarin misseri og svo virðist sem eitrað hafi verið fyrir þeim. Kettir sona Magnúsar Þórs Sigmundssonar tónlistarmanns voru drepnir nýlega. Magnús Þór segir að mikil hætta geti stafað af hegðun mannsins og biður hann að hætta þessum drápum.

Fyrir þremur árum veiktist köttur yngri sonar Magnúsar. Honum hafið verið byrlaður frostlögur. „Við tókum það mjög nærri okkur..[...] Ég man alltaf eftir þessu. Hann kom með hann hérna í fanginu og sagði hann er dáinn þetta var bara skelfilegt móment fannst mér.“ 
 
Fjölmörg svipuð dæmi hafa komið upp í bæjarfélaginu undanfarin ár en ekki hefur tekist að finna þann sem fremur þessi dýraníð. Mikið er um þetta talað og fjölmargar getgátur á lofti. 

„Það þarf eiginlega bara að standa svona mann að verki beint. Annað er eiginlega bara ekki til siðs.“

Magnús Þór segir að málið hafi verið kært til lögreglu og við höfum látið rannsaka núna síðast 5 maí þá dó annar köttur frá þessum sama syni mínum. 

„Þetta lýsir sér þannig að þeir verða svona yfirgengilega þyrstir fá aldrei nóg af því að drekka því líffærin í þeim eru að þorna upp.“

Magnús og sonur hans fóru með köttinn til dýralæknis sem reyndi að bjarga lífi hans með því að gefa honum vökva í æð en án árangurs. Líffærin voru ónýt. Þjáningar dýranna eru miklar. Flestir kettirnir sem hafa verið drepnir hafa búið i kringum Laufskógana. 

„Okkur grunar að einstaklingurinn sé einhverstaðar á því svæði. En svo bara veit maður ekkert um það.“ 

Hann hafi komið fyrir menguðum fiskstykkjum í smjörvaboxum t.d. í skoti á milli húsa sem er ógengt.  

Verða menn að fara í það að setja upp eftirlitsmyndavélar um allan bæ?

„Ef það yrði gert þá alla vega myndi viðkomandi ekki vera eins hugrakkur við að gera þetta.“
 
Magnús segir að mikil hætta geti stafað af hegðun mannsins. Lítil börn 3 og 4 ára leiki sér á svæðinu þar sem eitrið hafi fundist.  

„Þið getið ímyndað ykkur ef barn kemur í svona og styngur þessu upp í sig í barnaskap þá er nátturlega bara voðinn vís.“ 

„Það má kannski bæta einu við ef þessi einstaklingur er að heyra í okkur að biðja hann vinsamlegast að hætta þessum ósið.“
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV