Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enn er líklegast að skjálftavirkni ljúki án eldgoss

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Sérfræðingar Veðurstofunnar í jarðvísindum telja enn líklegast að jarðskjálftavirkni við Grindavík ljúki án eldsumbrota. Þetta kemur fram i athugasemdum sem jarðskjálftafræðingur birti rétt fyrir klukkan þrjú í dag. Síðasta sólarhringinn hafa um 700 skjálftar mælst á svæðinu. Jarðskjálftavirknin jókst verulega í gærkvöldi.

Um sex skjálftar yfir 3,0 að stærð hafa mælst og voru stærstu skjálftarnir um 4 að stærð klukkan 22.22 og 4,3 að stærð klukkan 22:24. Þetta eru jafnframt stærstu skjálftar sem mælst hafa síðan að virkni hófst 21. Janúar. Engin merki eru um gosóróa. Yfir 100 tilkynningar hafa borist um að skjálftinn hafi fundist á Reykjanesskaga, Höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi.

Nýjasta GPS úrvinnslan sýnir áframhaldandi landris á svæðinu vestan við Þorbjörn. Í heildina hefur land risið yfir 4 sentimetra frá 20. janúar síðastliðnum. Gervitunglamyndir sýna sömu þróun. Líklegasta skýring þessarar virkni er kvikuinnskot á 3-9 kílómetra dýpi rétt vestan við fjallið Þorbjörn.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV