Enn ekkert nýtt í gögnunum frá Þýskalandi

11.10.2017 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þær upplýsingar upp úr Panama-skjölunum sem íslensk yfirvöld hafa fengið í hendur frá þýsku alríkislögreglunni hafa enn ekki varpað neinu nýju ljósi á mál sem varða Íslendinga og íslensk félög. Þetta segir í svari Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra við fyrirspurn fréttastofu.

Fréttastofa sagði frá því í morgun að þýska alríkislögreglan hefði miðlað til íslenskra yfirvalda upplýsingum um málefni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem byggðu á rannsóknum hennar á Panama-skjölunum. Fjallað var um þetta í miðlinum Süddeutsche Zeitung í gær. Þýska lögreglan keypti skattaskjólsgögn af uppljóstrara á 5 milljónir evra í sumar.

Bryndís segir þau gögn séu nokkuð umfangsmeiri en þau sem íslensk yfirvöld keyptu vorið 2015 á 37 milljónir króna, en þó sé í grundvallaratriðum um sömu gögn að ræða. Embættin hafi verið í samskiptum vegna þessara gagna, en þau hafi enn ekki varpað neinu nýju ljósi á mál sem varða Íslendinga. Þó sé ekki útilokað að svo kunni að verða síðar, enda séu þýsk yfirvöld enn að vinna úr gögnunum.

Svar Bryndísar í heild sinni er á þessa leið:

„Skattrannsóknarstjóri og þýska alríkislögreglan hafi verið í samskiptum vegna þeirra gagna sem hin síðarnefndu keyptu. Um nokkuð umfangsmeiri gögn er að ræða en þau sem skattrannsóknarstjóri keypti en þó er í grundvallaratriðum um sömu gögn að ræða. Enn sem komið er hafa þau gögn ekki varpað neinu nýju ljósi á mál er varða íslenska aðila, en þó er ekki útilokað að svo kunni að verða síðar, enda þýsk yfirvöld enn að vinna úr gögnunum.“

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi