Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Enn ekkert nýtt í gögnunum frá Þýskalandi

11.10.2017 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þær upplýsingar upp úr Panama-skjölunum sem íslensk yfirvöld hafa fengið í hendur frá þýsku alríkislögreglunni hafa enn ekki varpað neinu nýju ljósi á mál sem varða Íslendinga og íslensk félög. Þetta segir í svari Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra við fyrirspurn fréttastofu.

Fréttastofa sagði frá því í morgun að þýska alríkislögreglan hefði miðlað til íslenskra yfirvalda upplýsingum um málefni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem byggðu á rannsóknum hennar á Panama-skjölunum. Fjallað var um þetta í miðlinum Süddeutsche Zeitung í gær. Þýska lögreglan keypti skattaskjólsgögn af uppljóstrara á 5 milljónir evra í sumar.

Bryndís segir þau gögn séu nokkuð umfangsmeiri en þau sem íslensk yfirvöld keyptu vorið 2015 á 37 milljónir króna, en þó sé í grundvallaratriðum um sömu gögn að ræða. Embættin hafi verið í samskiptum vegna þessara gagna, en þau hafi enn ekki varpað neinu nýju ljósi á mál sem varða Íslendinga. Þó sé ekki útilokað að svo kunni að verða síðar, enda séu þýsk yfirvöld enn að vinna úr gögnunum.

Svar Bryndísar í heild sinni er á þessa leið:

„Skattrannsóknarstjóri og þýska alríkislögreglan hafi verið í samskiptum vegna þeirra gagna sem hin síðarnefndu keyptu. Um nokkuð umfangsmeiri gögn er að ræða en þau sem skattrannsóknarstjóri keypti en þó er í grundvallaratriðum um sömu gögn að ræða. Enn sem komið er hafa þau gögn ekki varpað neinu nýju ljósi á mál er varða íslenska aðila, en þó er ekki útilokað að svo kunni að verða síðar, enda þýsk yfirvöld enn að vinna úr gögnunum.“

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV