Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Enn eitt dómsmálið vegna Jökulsárlóns

29.09.2015 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Jökulsárlón
Fyrirtækið Ice Lagoon sem selur skoðunarferðir með slöngubátum á Jökulsárlóni hefur stefnt sveitarfélaginu Hornafirði fyrir að neita að veita stöðuleyfi fyrir aðstöðukerru og hjólhýsi í sumar.

Sveitarfélagið lagði 250 þúsund króna dagsektir á fyrirtækið sumarið 2014 vegna þess að fyrirtækið hafði ekki stöðuleyfi. Ice Lagoon kærði það til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Sveitarstjórn tók ákvörðun án heimildar

Nefndin vísaði kærunni frá þar sem í raun lægi ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun af hálfu Hornafjarðar. Nefndin benti á að það hefði aldrei verið á valdsviði sveitarfélagsins að krefjast þess að fyrirtækið hætti starfsemi. Annaðhvort hefðu byggingarfulltrúi Hornafjarðar eða Mannvirkjastofun þurft að krefjast þess að lausamunir væru fjarlægðir en ekki sveitastjórn. „Voru hinar kærðu ákvarðanir því ekki teknar í samræmi við málsmeðferð þá sem mannvirkjalög og byggingarreglugerð mæla fyrir um,“ segir í úrskurði nefndarinnar sem taldi því engar endanlegar ákvarðarnir liggja fyrir sem taka þyrfti afstöðu til. Að sama skapi taldi fyrirtækið Ice Lagoon sig geta haft hótun sveitarfélagsins um dagsektir að engu.

Þjónustukerra og hjólhýsi á hrakhólum 

Í sumar hélt fyrirtækið áfram starfsemi þó stöðuleyfi lægi ekki fyrir og notaði færanlegar kerrur og hjólhýsi undir starfsemina. Það er sem áður segir í samkeppni við fyrirtækið Jökulsárlón ehf. sem selur ferðir með hjólabátum. Deilur fyrirtækjanna hafa tafið fyrir uppbyggingu samkvæmt nýju deiliskipulagi á þessum fjölsótta ferðamannastað. Deilurnar snúast í grunninn um það hvort samningur Jökulárlóns ehf. við landeigendur útiloki Ice Lagoon frá því að selja ferðir á lóninu. Ice Lagoon er einnig komið með samning við meirihluta landeigenda fyrir siglingum sínum.

Málið þokast hægt að niðurstöðu

Sem áður segir hefur Ice Lagoon nú stefnt sveitarfélaginu Hornafirði fyrir Héraðsdómi Austurlands vegna synjunar um stöðuleyfi. Í málinu gæti fengist niðurstaða um það hvort fullnægjandi sé að hafa samþykki meirihluta landeigenda til að fá stöðuleyfið. Mögulega fæst einnig úr því skorið hvort samningur hins fyrirtækisins, Jökulsárlóns ehf., við landeigendur og nýja deilskipulagið séu nægar ástæður til að veita Ice Lagoon ekki stöðuleyfi fyrir aðstöðu.