Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Enn brotalamir þrátt fyrir viðsnúning

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmyndir á sýningunni: Ragn - Valdimar Leifsson
Verulegur viðsnúningur hefur orðið á rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs þótt eigið fé hans sé enn neikvætt um tæplega 200 milljónir. Enn eru brotalamir í rekstri þjóðgarðsins og þörf á verulegum úrbótum.

Þetta er mat Ríkisendurskoðunar sem hefur skilað af sér skýrslu um starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs til Alþingis. Þjóðgarðurinn var stofnaður með lögum árið 2007, hann er stærsti þjóðgarður landsins og spannar 14.700 ferkílómetra.

Rekstur þjóðgarðsins hefur verið í miklum ólestri nánast allt frá stofnun og stafar það meðal annars af því hvernig hann er uppbyggður. Valddreifingin er mikil þar sem markmiðið var að tryggja aðkomu sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka, en erfitt hefur reynst að finna jafnvægi á milli valddreifingar annars vegar og skýrrar ábyrgðar á rekstri hins vegar.

Uppstokkun eftir svarta úttekt

Árið 2017 lét umhverfisráðuneytið gera sjálfstæða úttekt á starfseminni eftir að þjóðgarðurinn skilaði 200 milljóna króna tapi. Í henni kom fram að verulegar brotalamir höfðu verið á stjórnun og eftirliti með daglegum rekstri auk þess sem samskiptaleysi og trúnaðarbrestur milli framkvæmdastjóra og stjórnar höfðu alvarleg og neikvæð áhrif á starfsemina. Það endaði með því að framkvæmdastjórinn og stjórnarformaðurinn létu af störfum eftir að úttektin lá fyrir í mái í fyrra. Samhliða því voru gerðar margs konar úrbætur á grundvelli úttektarinnar.

Taprekstur gengur á eigið fé

Viðsnúningur hefur orðið í rekstrinum og skilaði þjóðgarðurinn 18 milljóna króna hagnaði í fyrra samanborið við 200 milljóna króna tap árið áður. Reksturinn er þó enn í járnum því taprekstur áranna á undan hefur étið upp eigið fé þjóðgarðsins sem er nú neikvætt um 186 milljónir króna. Rúmur helmingur tekna kemur af verslun og þjónustu við ferðamenn og þá skila bílastæðagjöld í Skaftafelli umtalsverðum tekjum. Tæpur helmingur kemur af fjárlögum.

Fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar að langstærstur hluti ferðamanna heimsæki suðursvæði þjóðgarðsins þar sem Skaftafell og Jökulsárlón er að finna. Mun færri kíkja á norðursvæðið þar sem helsta aðdráttaraflið er Ásbyrgi og Dettifoss.

Úrbóta enn þörf

Þrátt fyrir að margt hafi færst til betri vegar í rekstri þjóðgarðsins er það engu að síður mat Ríkisendurskoðunar að frekari úrbóta sé þörf. Kallað er eftir auknum stuðningi og leiðsögn umhverfisráðuneytisins og enn á eftir að skýra "óhefðbundið og valddreift" stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins. Skipurit hefur hvorki verið samþykkt af stjórn né ráðherra og svæðisráðin hafa ekki sett sér starfsreglur, ólíkt stjórninni. Þá vinna hvorki ráðin né stjórnin samkvæmt starfsáætlun. Bent er á að innra eftirliti þjóðgarðsins bæði með tekjum og gjöldum sé ábótavant og ekki eru til skráðir ferlar eða fyrirmæli um meðfeðr tekna, aðgreiningu starfa og skjölun gagna.