Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Enn bjartsýnn á að stjórn verði mynduð

02.12.2016 - 16:46
Mynd: Skjáskot / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson forseti veitti Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, í dag umboð til stjórnarmyndunar. Hann sagðist frá upphafi hafa leyft sér að vera bjartsýnn um gang stjórnarmyndanaviðræðna þó ekkert fast væri í hendi og kvað að sér væri enn þannig innanbrjósts.

Forseti hóf mál sitt á blaðamannafundi á Bessastöðum á því að rifja upp að rúmlega mánuður væri liðinn síðan ríkisstjórn missti meirihluta sinn í alþingiskosningum og forsætisráðherra baðst lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Síðan hefðu tveir flokksformenn reynt stjórnarmyndun án árangurs. Hann sagðist hafa ákveðið að bíða nokkra stund og sjá hvort staðan skýrðist eitthvað. Fyrir þessu sagði hann nokkur fordæmi og tiltók stjórnarmyndanir 1978, 1983 og 1987. Þetta hefði orðið til að formenn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri-grænna byrjað viðræður en upp úr þeim slitnað. Um leið hefðu forystumenn fjögurra flokka lýst áhuga á að ræða saman, Píratar, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin.

Guðni sagðist hafa leyft sér að vera bjartsýnn í stjórnarmyndunarviðræðunum þótt ekkert væri fast í hendi. „Þannig er mér enn innanbrjósts.“ Hann minnti á hlutverk stjórnmálamanna við myndun ríkisstjórnar. Hann sagði enga þörf á óðagoti þrátt fyrir að ekki hefði enn tekist að mynda ríkisstjórn.

Á blaðamannafundinum sagði Guðni að hann gerði ráð fyrir að heyra af gangi viðræðna upp úr helgi. Þing kemur saman á þriðjudag.

Guðni sagði að hugtakið stjórnarkreppa væri teygjanlegt. „Við erum í svipuðum sporum og við höfum áður verið í lýðveldissögunni,“ sagði Guðni. Það tæki tíma að mynda ríkisstjórn þegar úrslit kosninga yrðu eins og nú var raunin. „Það er engin hætta á einhverju pólitísku upplausnarástandi,“ sagði Guðni og kvað enn nægan tíma til stefnu. Ég veit að við munum fá ríkisstjórn fyrr en seinna.“