Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Engum fjármunum veitt til nýbyggingar SAK

02.12.2015 - 11:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum til viðbyggingar Sjúkrahússins á Akureyri á næstunni. Heilbrigðisráðherra segir verkefnið brýnt en fyrst verði að bregðast við óskum stjórnenda sjúkrahússins um aukið rekstrarfé

Tillaga um 8500 fermetra nýbyggingu fyrir legudeildir Sjúkrahússins á Akureyri var kynnt í október. Vinnuhóður skipaður af heilbrigðisráðherra taldi að nýbygging væri eini raunhæfi kosturinn til að leysa vandann sem við blasir í húsnæðismálum sjúkrahússins. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segir fjármuni til nýbyggingar ekki í augsýn.

Fyrst þarf að útvega aukið rekstrarfé
„Við höfum heyrt það frá forstjóra og stjórnendum Sjúkrahússins að það vanti nokkra fjármuni inn í reksturinn. Meðan við höfum ekki tryggingu fyrir því að geta brugðist við þeim hugmyndum öllum, þá eru hugmyndir um nýbygginguna enn lengra undan. Það þarf þá að gefa því rýmri tíma."

Þurfa 110 milljónir til viðbótar
Sjúkrahúsið var rekið með 70 milljóna króna halla fyrstu níu mánuði þessa árs. Stjórnendur þess segja að ef halda eigi óbreyttum rekstri þurfi 110 milljóna króna framlag til viðbótar því sem gert er ráð fyrir á fjárlögum. Þessar óskir segir Kristján nú til meðferðar hjá fjálaganefnd. En er ekki óvarlegt að kynna svona væntingar og eiga svo ekki fyrir verkefninu?

Ekki verið að skapa falskar væntingar
„Nei, alls ekki. Þetta er bara góð vinna og verkefnið er brýnt og þarft, en svigrúmið til fjármögnunar er alltaf háð því hvaða heimildir þingið veitir. Það er bara veruleiki sem við búum við," segir heilbrigðisráðherra.