Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Enginn vill segja mér hvar sonur minn er“

20.06.2018 - 16:17
Beata Mariana de Jesus Mejia-Mejia, ásamt sjö ára syni sínum Darwin. Myndin var tekin stuttu áður en mæðginin voru aðskilin af landamæravörðum í Arizona-fylki.
Beata Mariana de Jesus Mejia-Mejia, ásamt sjö ára syni sínum Darwin. Myndin var tekin stuttu áður en mæðginin voru aðskilin af landamæravörðum í Arizona-fylki. Mynd: AP
Beata Mariana de Jesus Mejia-Mejia, hælisleitandi frá Gvatemala, hefur kært tug bandarískra ríkisstofnana fyrir að taka sjö ára son hennar frá henni. Mæðginin komu til San Luis í Arizona um miðjan maí og gáfu sig strax fram við landamæraverði. Tveimur dögum síðar var sonur hennar tekinn frá henni og hún hefur ekki séð hann síðan.

Þetta er fyrsta kæran af þessu tagi síðan nýjar reglur tóku gildi um aðskilnað barna og foreldra á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Réttindasamtökin, American Civil Liberties Union (ACLU), kærðu aðgerðir yfirvalda á landamærunum í hópmálsókn fyrr á árinu, en þetta er í fyrsta skipti sem einstaklingur sækir ríkisstjórnina til saka fyrir réttarbrot í tengslum við reglugerðina. 

Mejia-Mejia var úrskurðuð í gærsluvarðhald á meðan umsókn hennar um hæli beið efnislegrar meðferðar, en var þó ekki ákærð. Hún var látin laus gegn tryggingu og bíður nú eftir mál hennar verði tekið fyrir innflytjendarétti. Sjö ára sonur hennar, Darwin, er hins vegar enn í haldi og segist hún ekki vita hvar hann er. Fulltrúar ríkisstjórnar Bandaríkjanna hafa ítrekað haldið því fram að börn séu aðeins tekin frá foreldrum sínum séu foreldrarnir ákærðir fyrir glæp, svo sem ólöglega komu til landsins.

„Ég er móðir og mæður berjast fyrir börnunum sínum“

Trygging Mejia-Mejia var greidd af Libre by Nexus, lögfræðistofa sem sérhæfir sig í málefnum innflytjenda. Lögfræðingur hennar, Mario Williams, starfar fyrir dótturfyrirtæki Libre by Nexus, sem er sérstaklega rekið í þeim tilgangi að þjónusta efnalítið fólk fyrir litla eða enga greiðslu. 

„Við verðum auðvitað ákaflega fegin þegar hún fær son sinn til baka, en við ætlum samt sem áður að halda kærunni til streitu, vegna þeirra víðtæku áhrifa sem þessi hræðilega reglugerð hefur á fólk um allt land, og heiminn allan,“ sagði Williams. 

Í kærunni krefst Mejia-Mejia þess að aðskilnaðurinn verði lýstur ólöglegur, barninu verði skilað til hennar, og yfirvöldum bannað að senda hana úr landi án sonar síns. Einnig sækist hún eftir bótum fyrir þær þjáningar sem hún hefur sætt vegna aðskilnaðarins. Lagalegur grundvöllur kærunnar byggist á úrskurði Hæstaréttar frá 2001 um réttindi útlendinga, óháð lagalegri stöðu þeirra, til réttlátrar málsmeðferðar. 

Þá lýsir hún í kærunni þeirri stund þegar grænklæddir landamæraverðir komu að sækja drenginn, sem grét og neitaði að yfirgefa móður sína. Verðirnir neituðu að gefa nokkra útskýringu og fékk hún heldur ekki að vita hvert þeir myndu fara með barnið, eða hvenær hún fengi að sjá hann aftur.

„Ég fékk bara að tala við hann einu sinni og hann hljómaði svo niðurdreginn. Sonur minn hljómaði aldrei þannig, hann var alltaf svo lífsglatt barn. Ég hringi og hringi og enginn vill segja mér hvar sonur minn er,“ sagði Mejia-Mejia í viðtali við Associated Press. Í dag segir hún alla sína orku fara í að fá son sinn heim, hún þrái ekkert heitar en að halda honum í fangi sér. „Ég er móðir og mæður berjast fyrir börnunum sínum. „Ég vona að mín barátta komi í veg fyrir að nokkur önnur móðir þurfi að ganga í gegnum þessa hryllilegu lífsreynslu.“

Emilía Sara Ólafsdóttir Kaaber
Fréttastofa RÚV