Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Enginn vafi á aukinni hryðjuverkaógn

15.11.2015 - 15:01
Mynd: RÚV / RÚV
Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um hertara landamæraeftirlit hér á landi vegna hryðjuverkaárásanna í París á föstudag. Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að alltaf sé vel fylgst með landamærunum og að venjan sé eftir slík voðaverk að fara yfir hlutina hér. Hún telur ekki vafa á því að hættan á hryðjuverkum hafi aukist eftir árásirnar á föstudag.

Innanríkisráðherra og forsætisráðherra áttu í morgun fund með fulltrúum ríkislögreglustjóra þar sem farið var yfir hvort bregðast þurfi við hryðjuverkunum í París hér á landi. „Menn meta svo að það sé hætta á hryðjuverkum í hinum vestræna heimi. Við erum hluti af honum og þurfum fylgjast mjög grannt með,“ segir Ólöf. 

Aðspurð hvort hætta hafi aukist eftir árásirnar í París, svarar hún að enginn vafi sé á að svo sé. 

Ekki eftirlit með fólki hér á landi

Lögregluyfirvöld víða í nágrannalöndum hafa gefið út að fylgst sé með ákveðnu fólki sérstaklega í tengslum við svona mál. Hvernig er þessu háttað hér á landi? Ólöf segir að reynt sé að fylgjast með fólki þannig að vitneskja sé um það ef ógn stafar af því. „Við vitum líka að það er mikill straumur af venjulegu fólki á flótta. Fólk sem er að flýja erfiðar aðstæður en við vitum líka að þegar slíkur mannfjöldi er á ferðinni að þá er misjafn sauður í mörgu fé og við þurfum, öll ríki, að passa upp á slíka hluti. Það er þess vegna sem Schengen samstarf skiptir máli, því við erum að stilla okkur upp með okkar nágrannalöndum, fylgjast vel með og við munum að sjálfsögðu gera það.“

Hún áréttar að ekki sé haft eftirlit með fólki sem býr hér á landi. „Það gerum við ekki en auðvitað er verið að huga að landamærum. Það gerum við. Það er bara hluti af landamæravörslu.“

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV