Enginn úr Miðflokki kæmist á þing

05.12.2018 - 06:54
Mynd með færslu
Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson, þingmenn Miðflokksins. Mynd: RÚV
Miðflokkurinn fengi aðeins 4,3 prósent atkvæða og engan þingmann kjörinn ef gengið yrði til kosninga nú, ef marka má könnun Zenter sem unnin var fyrir Fréttablaðið. Könnunin var framkvæmd í byrjun þessarar viku, eftir að þingmennirnir sex sem sátu að sumbli á Klaustri og níddu skóinn af samstarfsfólki sínu og öðrum höfðu fengið tækifæri til þess að bregðast við fregnum af orðum sínum.

Af þeim sex sem heyrast á Klaustursupptökunum svokölluðu voru fjórir þingmenn úr Miðflokknum auk tveggja þingmanna Flokks fólksins. Miðflokkurinn hlaut 10,9 prósent atkvæða í kosningunum í fyrra og Flokkur fólksins 6,9 prósent. Í könnun Zenter segjast 5,7 prósent svarenda styðja Flokk fólksins. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að fylgi við Miðflokkinn mælist 1,5 prósentustigum hærra í landsbyggðunum en á Höfuðborgarsvæðinu.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur í könnuninni með 21,4 prósent fylgi. Þar á eftir kemur Samfylkingin með 20,8 prósent og Píratar svo með 14,4 prósent fylgi. Vinstri hreyfingin – grænt framboð nýtur 12,7 prósenta fylgis samkvæmt könnuninni.

90,9 prósent svarenda í könnun Zenter segja að sexmenninngarnir sem heyrast tala á Klaustri eigi að segja af sér. Einungis 13 prósent kjósenda Miðflokksins svara spurningunni um hvort þeir eigi að segja af sér játandi, en mikill meirihluti stuðningsmanna annarra flokka segja þingmennina eiga að segja af sér.

Könnunin var gerð dagana 3. og 4. desember síðastliðinn meðal 2.300 einstaklinga í könnunarhópi Zenter. Spurt var annars vegar „hvaða flokk myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag?“ og hins vegar „hvaða flokk væri líklegast að þú myndir kjósa?“. 55 prósent svaraði könnuninni en um þriðjungur tók ekki afstöðu til spurninganna. Niðurstöðurnar voru svo vigtaðar eftir kyni, aldri og búsetu.