Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Enginn með mótaða peningastefnu

29.02.2012 - 19:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkisstjórnin hefur enn ekki mótað framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum og forystumenn stjórnarflokkanna tala hvor í sína áttina í málaflokknum. Stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir hafa heldur ekki mótað sér stefnu um framtíð krónunnar eða annan gjaldmiðil.

Staða íslensku krónunnar er sorgleg um þessar mundir. Hún styðst nú við belti og axlabönd í gjaldeyrishöftum og afnám haftanna gengur hægt. Það er lítið traust á gjaldmiðlinum og búist við að gríðarlegt fjármagn streymi úr landi ef höftin verða afnumin. Gengið sveiflast og verðbólgan með. Krónan styrkist á sumrin og veikist á veturna þegar flæði gjaldeyris til landsins minnkar. Hún hefur veikst um sjö prósent síðan í haust.

„Við þurfum að horfast í augu við það að krónan, íslenski gjaldmiðillinn, er okkur verulegur fjötur um fót og ég orða það þannig, það er, hann er eins og fíll í stofunni. Það vill enginn kannast við hann en hann er þar,“ sagði Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, í fréttum 15. febrúar síðast liðinn.

Eitt skýrasta dæmið um það hve krónan er veikur gjaldmiðill er gengi hennar gagnvart dönsku krónunni. Árið 1920 kostaði dönsk króna eina íslenska krónu. Nú kostar hún 22 krónur og ef tillit er tekið til þess að fyrir 30 árum voru tvö núll tekin aftan af krónunni kostar danska krónan í raun 2.200 íslenskar. Verðgildi íslensku krónunnar gagnvart þeirri dönsku er tæplega hálft prósent af því sem það var. Sumir halda því þess vegna fram að krónan sé ekki fljótandi gjaldmiðill heldur sökkvandi. Þetta ástand kemur illa við bæði fyrirtæki og launamenn í landinu.

„Krónan er dýr og það sem skiptir þar mestu máli er verðbólgan, vextirnir og óvissan í gengismálum. Þetta eru þeir þrír grundvallarþættir sem skipta máli fyrir hvern gjaldmiðil,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Krónan er lítt samkeppnishæf að mati Vilhjálms og henni fylgja gengissveiflur sem leiða til verðbólgu og vaxtahækkana. „Öll þessi óvissa skapar erfiðleika í rekstri og gerir árangur í rekstri minni en annars er.“

En það taka ekki allir hagfræðingar undir það að krónan sé fyrirtækjum fjötur um fót. Sveigjanleiki hennar hafi til að mynda komið í veg fyrir að atvinnuleysi yrði hér mun meira en nú er. „Með því að halda í okkar eigin mynt höfum við tækifæri til að reka peningamálastjórn á íslandi í samræmi við okkar efnahag og aðstæður,“ segir Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands. „Við getum sett okkar vexti og ráðið peningamagninu, við getum leyft gengi okkar myntar að hreyfast eftir markaðsaðstæðum og allt þetta getur gert það auðveldara á Íslandi að hafa hagvöxt og bæta kjör fólksins. Ef við tökum upp aðra mynt, hvort sem það er með myntbandalagi eða einhliða þá beygjum við okkur peningamálastjórn annars ríkis sem nánast örugglega mun ekki taka neitt tillit til aðstæðna á Íslandi.“

Við núverandi aðstæður hefur eðlilega sprottið upp umræða um stjórnun peningamála og framtíð krónunnar. Því er velt upp hvort nota eigi hana áfram eða skipta henni út fyrir annan, traustari gjaldmiðil, annað hvort með einhliða upptöku gjaldmiðils eða með inngöngu í myntbandalag - þá væntanlega Evrópusambandið og upptöku evru.

Það vekur því athygli að stjórnvöld virðast ekki hafa neina stefnu í þessu mikilvæga máli. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir aðeins að Seðlabankanum verði falið að skoða og meta valkosti í gjaldmiðilsmálum og gera tillögu til stjórnvalda. Þær tillögur hafa ekki borist en von er á skýrslu með vorinu. Samfylkingin vill aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru en hinn ríkisstjórnarflokkurinn er á öndverðum meiði þó síðasti landsfundur vg hafi ekki látið sig málið varða. „Ég mun ekki standa að mótun neinnar gjaldeyris- eða peningamálastefnu sem ekki gerir ráð fyrir þeim jafngilda valkosti öðrum að hér verði íslenska krónan okkar gjaldmiðill áfram,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, 14. mars í fyrra.

Það er ekki bara ríkisstjórnin sem er stefnulaus í þessu máli. Í efnahagstillögum Framsóknarflokksins segir einungis að kanna eigi framtíðarkosti og fá úttekt óháðra sérfræðinga á peningastefnunni. Sjálfstæðismenn ályktuðu á landsfundi síðasta haust að stofna nefnd til að kanna framtíðarskipan gjaldmiðilsmála. Kosið verður í nefndina í næsta mánuði.