Enginn loðnukvóti og horfur slæmar

Mynd með færslu
 Mynd:
Loðnuleit hefur verið hætt og Hafrannsóknastofnun ætlar ekki að leggja til veiðiheimildir. Sviðsstjóri hjá stofnuninni segir útlitið heldur ekki gott fyrir veiði að ári.

Hafrannsóknastofnun hefur lagt í fjóra leiðangra til að mæla loðnu. Þeim síðasta lauk í gær og niðurstaðan liggur fyrir. 

„Það sem komið er langt undir því sem þarf til þess að hægt sé að mæla með afla á þessari verðtíð enn sem komið er,“ segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkissviðs Hafrannsóknastofnunar.

Því leggur Hafrannsóknastofnun ekki til kvóta.

„Staðan er alls ekki góð. Og í grunnin vitum við ekki hvað veldur,“ segir Þorsteinn.

Stofnin er viðkvæmur því loðnan drepst að lokinni hrygningu og uppistaðan í veiðistofni hvers árs er því aðeins einn árgangur 

„Auk þess sem við höfum verið að tengja þetta þessum umhverfisbreytingum sem hafa verið að eiga sér stað síðustu 20 árin.  2-300 þúsund tonn þykir bara gott í dag. Á meðan við vorum að veiða hálfa aðra milljón tonn fyrir  25 árum,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að aflaverðmæti loðnu hafi árlega verið á bilinu fimmtán til þrjátíu milljarðar á síðustu árum. Ekki sé við því að búast að loðnustofninn rétti úr sér í náinni framtíð því mælingar á ungloðnu, sem ætti að verða veiðistofninn eftir ár, komu ekki vel út.

„Það eru ekki góðar horfur en þess ber að geta að spágildi þeirra gagna er ekkert sérstaklega gott,“ segir Þorsteinn.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV