Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Enginn karl verði á þingi 19.júní

05.06.2015 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, lagði til á Alþingi í dag að þeir karlar, sem ættu sæti á þingi, myndu víkja fyrir þeim konum sem væru varaþingmenn og sjá þannig til þess að aðeins konur sætu á þingi 19. júní þegar liðin verða 100 ár frá því að konur öðluðust kosningarétt.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, varpaði fram þeirri hugmynd í vikunni að Alþingi yrði einungis skipað konum í tvö ár. Hún lagði það til að kannaðir yrðu möguleikar á því að binda í lög fyrir næstu alþingiskosningar að einungis konur sitji á þingi árin 2017 til 2019.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, greip þessa hugmynd á lofti á þingi í dag og lagði það til að karlar á þingi vikju fyrir þeim konum sem væru varaþingmenn þannig að þann 19. júní - þegar liðin verða 100 ár frá því að konur öðluðust kosningarétt - sætu aðeins konur á þingi. „Þetta er hugmynd sem ég held að myndi vekja athygli út fyrir landsteinana.“

Þingmenn í sal virtust taka undir þessa hugmynd Steingríms J. og Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist vera til. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV