Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enginn Íslendingur á palli í matarverðlaunum

02.06.2019 - 12:18
Innlent · Matur
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Norrænu matarverðlaunin, Embla, og Matreiðslumaður Norðurlandanna, voru veitt í Hörpu um helgina. Enginn Íslendingur komst á pall að þessu sinni, en veitt voru verðlaun í 7 flokkum og Íslendingar tilnefndir í þeim öllum. Matreiðslumaður Norðurlanda er Svíi.

Norðurlandaþing matreiðslumeistara fór fram í Hörpu um helgina. Hingað kom fjöldi matreiðslumanna frá öllum Norðurlöndunum, sem bæði héldu erindi og tóku þátt í matreiðslukeppnum, hvar bar hæst Matreiðslumaður Norðurlanda. Þar sigraði Henric Herbertsson frá Svíþjóð, en Garðar Kári Garðarson var tilnefndur fyrir Íslands hönd. Kjell Patrick Örmen Johnes frá Noregi lenti í öðru sæti og Niko Suomalainen frá Finnlandi í því þriðja.

Norrænu matarverðlaunin, Embla, voru veitt í annað sinn. Verðlaun eru veitt í sjö flokkum og voru Íslendingar með tilnefningu í þeim öllum, án þess þó að hreppa hnossið að þessu sinni.

Íslendingarnir sem voru tilnefndir eru bændurnir á Erpsstöðum í Dölum í flokki matvælaiðnaðar, Vogabúið í Mývatnssveit fyrir hráefnisframleiðslu, Gísli Matthías Auðunsson matreiðslumaður fyrir miðlun um mat, fyrirtækið Matartíminn fyrir mat fyrir börn og ungmenni. Þá var  veitingadeild IKEA tilnefnd í flokknum matur fyrir marga, Hákon Kjalar Herdísarson í Traustholtshólma fyrir mataráfangastað Norðurlanda og Íslensk hollusta í flokki frumkvöðla. Finnar, Færeyingar og Danir fengu tvenn verðlaun hver og Svíar ein. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV