Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Enginn hvati til að gefa út nýjar námsbækur“

18.08.2017 - 19:31
Mynd: Rich Grundy (Flickr) / Flickr
Nemendur framhaldsskóla verja tugum þúsunda í bækur á hverri önn. Fulltrúi KÍ segir að það vanti tilfinnanlega bækur í mörgum námsgreinum í framhaldsskólum. Framkvæmdastjóri Iðnú segir að kerfið sé ónýtt, það sé enginn hvati til að gefa út nýjar bækur og yfirvöld hafi ekki staðið sig í stykkinu. 

Staðan versnað síðastliðin ár

Anna María Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Félagi framhaldsskólakennara, segir að námsgagnaútgáfa fyrir framhaldsskóla hafi aldrei verið upp á marga fiska hér á landi en staðan hafi versnað síðastliðin ár. 

Kennarasambandið hyggst í september boða til málþings um stöðuna, það ber yfirskriftina Skóli framtíðar, námsgögn fortíðar.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Anna María.

21 milljón í styrk í ár

KÍ hefur bent á að frá stofnun Þróunarsjóðs námsgagna hefur árleg heildarupphæð sem sótt er um verið hærri en úthlutunarfé sjóðsins. Í ár úthlutaði sjóðurinn 51 milljón, alls var sótt um 138 milljónir. 

„Þróunarsjóður námsgagna var stofnaður með lögum árið 2007 og hann veitir styrki á hverju ári til námsefnisgerðar. Árið 2008 voru 77 milljónir í sjóðnum, nú í ár var veitt 51 milljón. Þessi sjóður er fyrir öll skólastigin og það segir sig sjálft að þetta er ekki nægilegt. Þetta eru einu styrkirnir því það eru bara bókaforlögin sem gefa út námsefni fyrir framhaldsskóla, það er engin ríkisstyrkt bókaútgáfa eins og á grunnskólastiginu.“

Framlög sjóðsins voru skorin niður árið 2011 og hafa ekki verið hækkuð síðan. Í ár runnu 42% styrksins til námsgagnagerðar fyrir framhaldsskólastigið, 21 milljón. 

Leggur áherslu á að styðja við litlar iðngreinar

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink

Þórir Ólafsson, formaður stjórnar Þróunarsjóðs námsgagna, segir að sjóðurinn hafi lagt áherslu á að styrkja námsefni fyrir fámennar starfs- og verkmenntagreinar, svo sem málaraiðn og gullsmíði, þar hafi staðan verið verst, en hún hafi batnað nokkuð. Hann segir að það þyrfti að endurnýja námsefni á nokkurra ára fresti en það sé ekki gert. Það hafi enginn fjárhagslegt bolmagn til að endurskoða sögubók á nokkurra ára fresti. 

Eðlisfræði 103 frá árinu 2000, Stjórnmálafræði frá árinu 2003, og sögubókin Nýir tímar frá árinu 2006. Þessar bækur og fleiri til má finna á bókalista Fjölbrautarskólans í Garðabæ fyrir komandi skólaár. 

En hvenær er bók úrelt? 

Bjarni Þorsteinsson, útgáfustjóri hjá Bjarti, segir misjafnt hvað bækur úreldast hratt, bækur sem notaðar séu við tungumálakennslu séu fljótar að úreldast þar sem textarnir eigi að lýsa samfélagi einhvers lands, ef bókin er tíu ára gömul er myndin skökk, segir hann.  

„Ef maður skoðar gamlar námsbækur þá sér maður að þó það sé kannski verið að fjalla um eitthvað sem er klassískt, eins og mannkynssögu, stærðfræði eða heimspeki, þá breytist tíðarandinn það mikið að bækurnar þurfa einhvern veginn alltaf líka að endurspegla hann," segir Anna María. 

Nemendur eigi lögum samkvæmt að fá styrk til bókakaupa

Anna María segir stuðningi við nemendur líka ábótavant. 

„Mig langar að nefna að í framhaldskólalögunum frá 2008, í 51. grein, er talað um að á hverjum fjárlögum skuli tilgreind fjárhæð sem nemendur eiga að fá vegna námsgagna. Þessi framlög hafa aldrei verið sett inn. Lögin eru sett 2008 og þetta framlag sem er lögbundið hefur verið 0 krónur síðan." 

Ákvæðið hljómar svona: 

Í fjárlögum ár hvert skal tilgreind sú fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Ráðherra setur reglur um skiptingu fjárins og fyrirkomulag þessa stuðnings. 

Kennarasambandið hefur gert athugasemdir við þetta á hverju ári síðastliðin níu ár. Stefna sambandsins er að nám í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu. Þorgeir Ólafsson, upplýsingafulltrúi hjá menntamálaráðuneytinu, segir að vegna erfiðrar stöðu í ríkisfjármálum árið 2008 og næstu ár þar á eftir hafi ákvæðið ekki verið virkjað í fjárlögum. Ráðuneytið sé að vinna að undirbúningi stefnumótunar um námsgögn og þá komi þetta ákvæði til athugunar. Ekki hafi verið rætt um að breyta lögum á þann veg að fella ákvæðið úr þeim. Stjórnsýslufræðingur sem Spegillinn ræddi við telur að það feli ekki í sér lögbrot að útdeila engum fjármunum í námsgögn nemenda, hugmyndin á bak við lagaákvæðið hafi sennilega verið að veita ráðherra sveigjanleika til að verja fjármunum í málaflokkinn eða ekki, það sé því fyrst og fremst pólitísk spurning hvort og hversu miklum fjármunum skuli verja til að greiða fyrir námsgögn nemenda. 

Dapurlegar sölutölur

Það eru einkum Iðnú og Forlagið sem gefa út námsbækur fyrir framhaldsskóla. Bjartur var svolítið á þessum markaði en hefur ekki gefið út nýja námsbók síðan bókin Danmarksmosaik kom út árið 2012. Bjarni Þorsteinsson, útgáfustjóri, og annar höfunda Danmarksmosaik, segir þetta þungan róður. Sölutölur á ónotuðum bókum séu afar dapurlegar, bækurnar seljist kannski ágætlega fyrsta árið en svo verði algert hrun, þær fari á skiptibókamarkaði eða séu skannaðar. Á sama tíma hafi kröfur kennara um að bókum fylgi verkefni aukist, þetta sé eitraður kokteill. Stuðningur yfirvalda er að hans mati of lítill. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Heiðar Ingi.

Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri Iðnú, segist vera í námsgagnaútgáfu af hugsjón, sá hluti útgáfunnar sé rekinn með tapi. 

„Í raun er staðan það alvarleg að mínu mati að ég tel að það viðskiptaumhverfi og það kerfi sem er við lýði í námsbókaútgáfu, bæði fyrir grunn- og framhaldsskóla sé bara ónýtt. Að sumu leyti úrelt og hafi ekki fylgt þörfum markaðarins, nemenda og skólanna í sívaxandi og breytilegu umhverfi. Við þurfum bara nýtt kerfi og aðrar leikreglur á þessum markaði til þess að þetta virki."

Hann segir að það myndi strax breyta stöðu útgefenda ef grunnskólamarkaðurinn myndi opnast fyrir almennum útgefendum á borð við Iðnú. 

Segir langtímaáhrif skiptibókamarkaða neikvæð

Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot
Skjáskot af Facebook-síðu þar sem skiptibækur ganga kaupum og sölum.

Heiðar segir það neikvætt til lengri tíma litið að hlutdeild skiptibókamarkaða á námsbókamarkaði fyrir framhaldsskóla sé stór. „Það þýðir að virðisauki af þeirri sölu skilar sér ekki til útgefenda eða höfunda. Það er þá ekki hvati til að gefa út nýjar bækur því höfundar eða útgefendur fá ekkert af verðmæti þessara skiptibóka. Þetta er bara endurnýting og sá eini sem fær einhvern virðisauka er sá sem er með álagninguna og stýrir því á hvaða verði bækurnar eru keyptar inn og á hvaða verði þær eru seldar."

„Sjálfsögð þjónusta við nemendur“

Yfirstrikunarpennar og gleraugu ofan á skólabók.
 Mynd: Pixabay

Hjá Pennanum hefur hlutdeild nýrra bóka þó verið að aukast, að sögn forstjórans, Ingimars Jónssonar, í fyrra voru 64% seldra námsbóka nýjar og 36% skiptibækur. Árið 2015 var hlutfall skiptibóka 59%. Ingimar tekur alls ekki undir það að skiptibókamarkaðir ýti undir námsgagnaskort og segist líta svo á að þeir séu sjálfsögð þjónusta við nemendur. Komin séu um það bil 30 ára hefð fyrir þeim. Sú hefð hafi orðið til vegna þess að verð á nýjum námsbókum var hátt og nemendur höfðu þörf fyrir að nýta og spara. Kristín Rós Hlynsdóttir, vörustjóri námsbóka hjá A4, segir ekki hægt að kenna skiptimörkuðum um skort á nýju námsefni, markaðurinn hafi líka breyst, það sé mjög misjafnt eftir kennurum hvaða bækur verði fyrir valinu. Ingimar spyr hvers vegna höfundar og útgefendur ættu að fá eitthvað í sinn hlut af sölu gamalla bóka. Þannig sé það ekki á fornbókasölum. Þeir fái sinn skerf í upphafi. Krafan um að fá hlutdeild í söluandvirði notaðra bóka sé í raun algerlega óraunhæf, það sé engin stjórn á þessum markaði, skipst sé á bókum milliliðalaust út um allt. Þess vegna hafi skiptibókamarkaður Pennans verið að minnka. Ingimar tekur þó undir það að markaðurinn sé erfiður og að lítið sé stutt við hann. 

Rafræn námsgögn málið? 

Heiðar vill að höfundum og útgefendum verði tryggðar auknar tekjur af bókaútgáfu, án mikils kostnaðarauka fyrir nemendur. 

„Að þeir fái allavega stærri hluta en núna. Kannski tvö lykilatriði í því. Annars vegar, hvers vegna er ríkið ekki að greiða námsgögn til nemenda upp að 18 ára aldri eins og víðast hvar á Norðurlöndunum. Þá myndi ríkið bara kaupa þessar bækur, til dæmis af okkur, og gert þá ákveðnar kröfur um gæði og endurnýjun í því. Það er eitt og af þeirri köku myndu höfundar fá sinn hluta. Hitt er það að það er komin heimild í lög um tilraunainnheimtu vegna rafræns námsefnis sem gefið er út fyrir framhaldsskóla. Gjald væri þá innheimt beint af nemendum í gegnum innheimtukerfi skólanna og þeim peningum síðan skilað til höfunda eða útgefenda. Þetta er bara tilraun, það er margt sem þarf að skoða í því, lagaheimildin er til en í tvö ár hefur menntamálaráðuneytið ekki gefið út reglugerð svo við getum unnið eftir þessu og prófað þetta. Við hjá Iðnú erum til dæmis tilbúin með gagnvirkt, rafrænt námsefni unnið á danskan hugbúnað hjá dönsku forlagi sem er mjög framarlega í útgáfu námsefnis fyrir framhaldsskóla og við getum ekki hafið tilraunir með þetta því það vantar reglugerð. Þetta er alla vega ein leið, að prufa að innheimta kostnað vegna rafrænna námsgagna beint af nemendum án milliliða og lækka verðið sem því nemur."

Reglugerðin á til dæmis að kveða á um hámarksgjald sem skólar mega innheimta fyrir rafræn námsgögn. Oft eru kennarar við skólana sjálfir að gera námsefni, það er því ákveðin hætta á hagsmunaárekstrum.  

Ráðuneytið: Þurfa ekki að bíða eftir reglugerð

Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, segir að reglugerðin sé enn í smíðum. Lögfræðingar ráðuneytisins séu þó sammála um að skortur á reglugerð standi ekki í vegi fyrir því að skólar geti sótt um heimild til þess að innheimta gjöld vegna rafræns námsefnis. Þeir verði bara að miða við reglur um gjaldtöku hins opinbera, að gjald fyrir þjónustu sé ekki hærra en kostnaðurinn við að veita hana. 

Ný námskrá og hver með sínar áherslur

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is

Ný námskrá framhaldsskólanna frá árinu 2011 hefur líka haft áhrif á forsendur námsbókaútgáfu. Með henni heyrði það sögunni til að útgefendur geti gefið út námsbók í íslensku og verið nokkuð vissir um að hún verði kennd við meginþorra framhaldsskóla. Kennarar hafa meira frelsi en áður til að setja saman áfanga og velja námsefni í takt við áherslur sínar. 

„Það er hluti af kerfisvandanum, að setja námskrá og samþykkja námskrá þar sem hvergi er getið neitt um námsgögn. Það er eiginlega ótrúlegt að hægt sé að samþykkja nýja námskrá sem gefur skólunum frelsi til að semja sitt eigið efni án þess að tengja það með nokkrum hætti við námsefnisgerð," segir Heiðar. 

Hver kennari hafi ólíkar þarfir. Rafræn útgáfa gæti að mati Heiðars svarað þessu að einhverju leyti því það er auðveldara að breyta henni. Þó sé líka í því kostnaður sem einhver þurfi að greiða. „Þetta vandamál er alveg á pari við skiptibókamarkaðina en er angi af sama máli, að kerfið er ónýtt."

 

Notar fjölrit og vefsíður - bækurnar á jaðrinum

Guðmundur Gíslason, verkefnastjóri og sögukennari við Fjölbrautarskólann í Garðabæ, segist vel hafa fundið fyrir skorti á námsefni. Guðmundur hefur til dæmis ákveðið að kenna Íslandssögu sér en hún var áður kennd með mannkynssögu, það er engin námsbók til sem hentar áherslum hans og því hefur hann stuðst við fjölrit og heimildir af netinu. Guðmundur segir að ekki séu allir hrifnir af því að hafa námsbók, finnist betra að nemendur vinni með góðar heimildir. Sjálfur hefur hann ýtt bókunum út á jaðarinn og styðst aðallega við fjölrit og vefsíður. 

„Ekki hægt að bjóða fyrsta árs nemum bækur á ensku“

Anna María, sem kennir í FB,  segir að fjölrit séu góðra gjalda verð en þau verði aldrei fullgilt námsefni. Þá segir hún mikilvægt að námsefni sé á íslensku. Það sé ekki hægt að bjóða nemendum á fyrsta ári í framhaldsskóla upp á það að nota stærðfræði og raungreinabækur á ensku. Það tíðkast til dæmis í Kvennó. Heiðar segist skilja það að kennarar reyni að bjarga sér með efni þegar kerfið virkar ekki.

„En það getur verið vont að því leiti að inni í þessu eru ekki gæðakröfur. Ef á að breyta kerfinu hafa stjórnvöld það í hendi sér, ef til dæmis útgefendum eða höfundum er hleypt að innheimtukerfi skólanna með innheimtu á námsefni þá eiga stjórnvöld að gera einhverjar gæðakröfur á móti."

Önnu Maríu finnst mikilvægast að námsgögn séu góð, hvort sem þau eru rafræn eða ekki. Í Noregi hefur ríkið farið þá leið að kaupa námsefni af höfundum og setja það inn á sérstakan vef. Norskir kennarar telja vefinn of stýrandi, valið of lítið. „Hins vegar er úrvalið alveg gríðarlegt og íslenskir kennarar myndu aldrei setja út á þetta, að hafa aðgang að öllu þessu efni til að velja úr og nota í sinni kennslu."

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV