Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Enginn heimsendir þó krónan falli

23.10.2018 - 21:25
Gylfi Zoega í Kastljósi
 Mynd: Fréttir
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, segir að ekki sé hægt að bæta lífskjör einnar þjóðar með því að hækka öll laun í landinu. Lyfta eigi lífskjörum þannig að útkoman verði bættur kaupmáttur launa en ekki rýrari kaupmáttur hverrar krónu. Hann segir það heppni að lífskjör hafi batnað við launahækkanir árið 2015. Það megi að miklu leyti þakka stórlækkun á olíuverði á heimsmarkaði.

Gylfi vann nýja skýrslu um stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga fyrir forsætisráðuneytið í sumar. Þar kom fram að svigrúmið til kjarahækkana væri fjögur prósent og að hægt væri að bæta kjör fólks með ýmsum öðrum ráðum en að hækka kaupið. Sigríður Hagalín Björnsdóttir ræddi við Gylfa í Kastljósi kvöldsins um það hvernig kröfugerðir fyrir komandi kjarasamninga samræmist niðurstöðum skýrslunnar. 

Gylfi segir spurninguna ekki vera hve margar krónur við fáum í vasann, heldur hve margar krónur við getum veitt okkur. „Það er ekki hægt að bæta lífskjör einnar þjóðar með því að við semjum bara okkar á milli um að hækka öll laun í landinu um einhver x prósent því að lífskjörin fara eftir framleiðini vinnuafls, útflutningstekjum, viðskiptakjörum o.s.frv. Ef við ætlum að hafa lífskjör sem að hækka meira en þessir þættir segja til um, þá lækkar krónan í virði og hver króna verður minna virði þó við fáum meira í umslagið. Spurningin er ekki hversu margar krónur við fáum heldur hvað við getum veitt okkur.“ Hann segir að byggja þurfi kjaraviðræður á staðreyndum þannig að útkoman muni bæta kaupmátt launa en ekki aðeins rýra kaupmátt hverrar krónu. Lyfta eigi lífskjörum á skynsamlegan hátt, smám saman.

Gylfi segir enga heimsendaspá þó krónan falli. Það myndi einungis þýða að hærri laun fengjust í krónum talið en minna fengist fyrir hverja krónu. Hann segir það heppni að lífskjör hafi hafi batnað við launahækkanir árið 2015, þegar samið hafi verið um töluverðar launahækkanir.

„Það er enginn heimsendir þó krónan falli. Það þýðir bara að við fáum hærri laun í krónum og getum keypt minna fyrir hverja krónu en það sem gerðist 2015 þegar það var samið um ansi brattar launhækkanir var að olíverð á heimsmarkaði stórlækkaði, fór úr 100 dollurum í 50, sem þýdi að flugfargjöld gátu lækkað sem stuðlaði að því að ferðamönnum fjölgaði gríðarlega mikið svo landið varð allt í einu miklu rikara og tekjurnar jukust samtímis að það var samið um hærri laun svo það má segja að það hafi verið heppni að lífskjörin gátu batnað á þeim tíma.“ Ekkert sé í spilunum núna sem bendi til þess að eitthvað svipað, líkt og lækkun á olíuverði, gerist á næstu tveimur, þremur árum og því þurfi menn að stíga varlega til jarðar.